Auknar líkur á hækkun stýrivaxta

Líkur eru á því að verðþrýstingur verði á fasteignamarkaði.
Líkur eru á því að verðþrýstingur verði á fasteignamarkaði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Líkur eru á því að Seðlabankinn þurfi að hækka stýrivexti ef aðgerðir ríkisstjórnarinnar í Grindavík leiða til mikilla verðhækkana á húsnæði. Fyrirsjáanleg sé hækkun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni Grindavíkur sem veldur verðbólguþrýstingi. 

Þetta er mat Hjalta Óskarssonar hjá hagfræðideild Landsbankans. 

„Ef að miðað er við að ríkið kaupi eignir Grindvíkinga, þá þurfa Grindvíkingar að kaupa sér aðrar eignir eða leigja. Það mun leiða til aukins þrýstings á fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni Grindavíkur,“ segir Hjalti. 

Óljós áhrif mótvægisaðgerða 

Hann segir að tal ríkisstjórnarinnar um nýjar reglur um skammtímaleigu íbúða og innfluting einingahúsa geti haft áhrif á verðþróunina, en þó sé algjörlega óljóst á þessum tímapunkti hversu miklu slíkar mótvægisaðgerðir kunni að skila. Þá sé ómögulegt að skjóta á hversu mikil hækkun fasteignaverðs kann að verða á þessum tímapunkti. 

Hjalti Óskarsson hjá hagfræðideild Landsbanka.
Hjalti Óskarsson hjá hagfræðideild Landsbanka. Ljósmynd/Aðsend

Hvað með stýrivexti. Er ekki fyrirsjáanlegt að Seðlabankinn muni hækka vexti enn frekar vegna þessara vendinga? 

Ef að fasteignamarkaðurinn hækkar mikið þá hækkar verðbólgan auðvitað með í gegnum vísitölu neysluverðs og það er líklegra en ella að Seðlabankinn þurfi að hækka stýrivexti frekar en að lækka. Það verður afleiðingin,“ segir Hjalti.  

Hann segir útfærslu aðgerða ríkisstjórnarinnar skipta miklu. Ómögulegt sé að spá fyrir um hversu mikil áhrif aðgerðirnar muni hafa á hagkerfið þegar ekki liggur fyrir hver útfærslan verður. Bæði hafa talsmenn ríkisstjórnarinnar talað um uppkaup á öllum eignum í Grindavík en jafnframt að fólk fái greitt eigið fé í eignum sínum og lífeyrissjóðir, bankar og ríkið beri ábyrgð á þeim lánum sem á eignunum hvíla. 

Full bratt að segja verðbólguna komna til að vera

Mætti þá segja að verðbólgan sé komin til að vera? 

Húsnæðisliðurinn er 19-20% af vísitölunni og það eru fleiri liðir sem ráða vísitölu neysluverðs. Því er kannski full bratt að segja að verðbólgan sé komin til að vera. En það er ljóst að ef húsnæðisverð hækkar vegna þessara aðgerða þá verður verðbólgan hærri en hún myndi annars vera. Eins að ef hún mun lækka þá mun hún lækka minna en hún myndi annars gera,“ segir Hjalti.     

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert