„Hætta á því að það dragi úr samstöðunni“

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Óbreyttir stýrivextir eru mikil vonbrigði, bæði fyrir fyrirtæki landsins og heimilin.“

Þetta segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, við mbl.is þegar leitast var eftir viðbrögðum hennar við þeirri ákvörðun peningastefnunefnd Seðlabankans um að halda stýrivöxtum óbreyttum. Þeir eru áfram 9,25 prósent eins og þeir hafa verið frá því í ágúst á síðasta ári.

„Það hefur ríkt mjög mikil samstaða um mikilvægi þess að ná tökum á verðbólgunni til þess að vaxtalækkanir geti hafist. Ég hef áhyggjur af því og það er hætta á því að það dragi úr samstöðunni ef að árangur lætur á sér standa,“ segir Sigríður Margrét.

Hún segir að það liggi alveg fyrir að aðilar almenna vinnumarkaðarins hafi lagt sitt af mörkum með kjarasamningum til að styðja við að ná niður verðbólgunni og nú ríði á að hið opinbera sýni sömu ábyrgð í verki hvort sem að snúi að kjarasamningum eða opinberum fjármálum.

Búin að vera of lengi með allt og háa verðbólgu

„Það eru mikil vonbrigði að hagtölurnar gefi ekki tilefni til þess að draga úr taumhaldi peningastefnunnar. Við erum búin að vera of lengi með allt of háa verðbólgu. Hún er þó komin niður í sex prósent og undirliggjandi verðbólga fimm prósent.“ 

Sigríður Margrét segir að raunstýrivextir séu háir í sögulegu samhengi en það sem skipti öllu máli núna er úthald og að áfram verði agi og samstaða til þess að ná árangi. Hún segir að undirliggjandi hagstærðir gefi tilefni til þess að ætla það að það styttist í að vaxtalækkunarferli hefjist.

Launaskrið umfram samninga skapar verðbólguþrýsting

„Í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar kemur fram að henni er hugleikið launaskrið. Við höfum einmitt verið að benda á það að undanförnu og höfum haldið sérstaka fundi til þess að vekja athygli á því að verkefninu er ekki lokið. Það skipir mjög miklu máli þess vegna að horfa til þeirra kjarasamninga sem á eftir að ljúka og eins launaskriðs á almenna markaðnum,“ segir Sigríður.

Hún segir að launaskrið umfram kjarasamninga skapi verðbólguþrýsting og því sé mikilvægt að ná samstöðu að halda aftur af skriðinu af því að kjarasamningarnir séu þess eðlis að þeir feli í sér launahækkanir sem samræmist verðstöðuleika.

„Um leið og við förum að fara út fyrir það þá er árangurinn í hættu,“ segir Sigríður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert