Kári segir Helgu fara með rangt mál

Katrín Jakobsdóttir, Kári Stefánsson og Helga Þórisdóttir.
Katrín Jakobsdóttir, Kári Stefánsson og Helga Þórisdóttir. Samsett mynd

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE), segir það ekki rétt að hann hefði hótað að fara í mál við Persónuvernd í heimsfaraldrinum og að Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra og forsetaframbjóðandi, hefði stutt hann í því líkt og Helga Þórisdóttir forsetaframbjóðandi hélt fram. 

Kári sendi mbl.is yfirlýsingu í kjölfar viðtals við Helgu, sem er í leyfi frá störfum sem forstjóri Persónuverndar, á Rúv á föstudagskvöld. 

Í viðtalinu sagði Helga að Persónuvernd fari eftir lögum og stundum verið atyrt af ráðherrum fyrir það. Í því sambandi nefndi hún að það hefði verið alvarlegt hvernig Katrín, mótframbjóðandi hennar, ákvað að styðja frekar ÍE heldur en Persónuvernd í heimsfaraldrinum. 

„Það var líka ákveðið áfall fyrir okkur hjá Persónuvernd þegar við lentum í því að þáverandi forsætisráðherra ákvað að stíga fram og styðja frekar einkafyrirtæki, sem hafði hótað okkur málshöfðun, heldur en Persónuvernd, sem hefur það eina starf að fara að lögum. Og það gerðist í Covid-faraldrinum,“ sagði Helga í viðtalinu og bætti við að hún hefði ekki átt í beinum orðaskiptum við þáverandi forsætisráðherra. 

„Það var forstjóri sterks fyrirtækis sem birti samskipti sín við forsætisráðherra, þar sem hún tjáði skoðun sína á framferði Persónuverndar án þess að hafa nokkurn tímann talað við okkur um afstöðu okkar í málinu. Og það er dálítið alvarlegt vegna þess að við erum algjörlega sjálfstæð stofnun og eigum bara að fara að lögum.“

Aðspurð sagðist hún hafa átt í samskiptum við Kára vegna málsins. „Þau hafa verið meira í átakabúningi af hans hálfu, eiginlega alla tíð. Og löngu áður en ég kom til starfa hjá Persónuvernd,“ sagði Helga. 

Í umboði sóttvarnalæknis 

Í yfirlýsingu Kára er málið rakið frá hans sjónarhorni. 

Þar segir að samkvæmt sóttvarnalögum sé það hlutverk sóttvarnalæknis, sem var þá Þórólfur Guðnason, að skipuleggja og framkvæma, varnir gegn Covid-19 „og veittu lögin honum víðtækar heimildir til þess“.

Hann leitaði til ÍE vegna margvíslegrar aðstoðar, svo sem að greina sjúkdóminn, raðgreina veiruna úr öllum sem greindust, hanna hugbúnað til að halda utan um gögn sem urðu til, greina gögnin og sækja í þau nýja þekkingu sem mætti nýta í baráttunni við faraldurinn.

„Allt þetta gerði Íslensk erfðagreining í umboði sóttvarnarlæknis og að hans beiðni en á eigin kostnað. Fyrirtækið var um langan tíma allt lagt undir þjónustu við sóttvarnir.“

Katrín studdi sóttvarnalækni 

Þá segir að er langt var liðið á faraldurinn hafi Persónuvernd ákvarðað að ÍE hefði í vinnu sinni fyrir sóttvarnalækni brotið Persónuverndarlög, „vegna þess að hún hefði í raun réttri verið að stunda vísindarannsókn en þóst vera að sinna sóttvörnum og hafði þar að engu orð sóttvarnarlæknis, eins og það hefði ekki mátt búast við því að hann vissi sjálfur um hvað hann hefði beðið“.

Kári segir að Katrín hafi stutt sóttvarnalækni í málinu, ekki ÍE sem var eingöngu að vinna í umboði sóttvarnalæknis. 

„Að öllum líkindum gerði hún það vegna þess að hún gerði sér grein fyrir því að án þeirrar aðstoðar sem Persónuvernd ákvarðaði að væri ólögleg hefði verið ógjörningur að sinna sóttvörnum á þeim tíma sem faraldurinn var í hámarki.“

Fór með málið fyrir dóm 

Kári segir að Katrín hafi tekið afstöðu með hagsmunum almennings, „sem var í hættu á þessum tíma en ekki vafasamri ákvörðun Persónuverndar“.

„Helga sagði í fyrrnefndum þætti [viðtalinu á Rúv] að ég, Kári Stefánsson, hefði hótað því að fara í mál við Persónuvernd og gaf í skyn að Katrín hefð stutt mig í því. Hvort tveggja er rangt, ég hótaði því ekki að fara í mál við Persónuvernd, ég sagðist ætla að fara í mál til þess að fá hnekkt þessari einu ákvörðun Persónuverndar sem ég og gerði og það mál vann ég í Héraði. Á það minntist Helga hins vegar ekki í viðtalinu.“ 

Þess má geta að Kári hefur lýst opinberlega yfir stuðningi við forsetaframboð Katrínar. 

Yfirlýsinguna má sjá í heild sinni hér að neðan:

Helga Þórisdóttir forstjóri Persónuverndar og forsetaframbjóðandi lét hafa það eftir sér í viðtalsþætti í Ríkisútvarpinu að Katrín Jakobsdóttir þáverandi forsætisráðherra hefði sýnt af sér ábyrgðarleysi þegar hún „tók afstöðu með einkafyrirtæki og gegn Persónuvernd“ í deilum um þátttöku íslenskrar erfðagreiningar í vörnum gegn Covid 19. 

Nú skulum við skoða efni màlsins sem Helga var að barma sér yfir: Samkvæmt sóttvarnarlögum var það hlutverk sóttvanarlæknis að að skipuleggja og framkvæma, varnir gegn Covid 19 og veittu lögin honum víðtækar heimildir til þess. Hann leitaði til íslenskrar erfðagreiningar um margvíslega aðstoð, eins og að greina sjúkdóminn, raðgreina veiruna úr öllum sem greindust, hanna hugbúnað til  að halda utan um gögn sem urðu til, greina gögnin og sækja í þau nýja þekkingu sem mætti nýta í baráttunni við faraldurinn. Allt þetta gerði Íslensk erfðagreining í umboði sóttvarnarlæknis og að hans beiðni en á eigin kostnað. Fyrirtækið var um langan tíma allt lagt undir þjónustu við sóttvarnir. 

Þegar langt var liðið á faraldurinn ákvarðaði Persónuvernd hins vegar að Íslensk erfðagreining hefði í vinnu sinni fyrir sóttvarnarlækni brotið Persónuverndarlögin vegna þess að hún hefði í raun réttri verið að stunda vísindarannsókn en þóst vera að sinna sóttvörnum og hafði þar að engu orð sóttvarnarlæknis, eins og það hefði ekki mátt búast við því að hann vissi sjálfur um hvað hann hefði beðið. Katrín Jakobsdóttir studdi sóttvarnarlækni í þessu máli en ekki Íslenska erfðagreiningu sem var eingöngu að vinna í hans umboði. Að öllum líkindum gerði hún það vegna þess að hún gerði sér grein fyrir því að án þeirrar aðstoðar sem Persónuvernd ákvarðaði að væri ólögleg hefði verið ógjörningur að sinna sóttvörnum á þeim tíma sem faraldurinn var í hámarki. Katrín tók afstöðu með hagsmunum fólksins í landinu sem var í hættu á þessum tíma en ekki vafasamri ákvörðun Persónuverndar. Helga sagði í fyrrnefndum þætti að ég, Kári Stefánsson, hefði hótað því að fara í mál við Persónuvernd og gaf í skyn að Katrín hefð stutt mig í því. Hvort tveggja er rangt, ég hótaði því ekki að fara í mál við Persónuvernd, ég sagðist ætla að fara í mál til þess að fá hnekkt þessari einu ákvörðun Persónuverndar sem ég og gerði og það mál vann ég í Héraði. Á það minntist Helga hins vegar ekki í viðtalinu. Ákvörðun Persónuverndar er ekki lengur gild enda var öll þessi vinna Íslenskrar erfðagreiningar unnin í samræmi við sóttvarnarlög og til þess að hlúa að hagsmunum samfélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert