Halla efst í veðbönkum

Halla Tómasdóttir, Katrín Jakobsdóttir og Halla Hrund Logadóttir eru sigurstranglegust …
Halla Tómasdóttir, Katrín Jakobsdóttir og Halla Hrund Logadóttir eru sigurstranglegust samkvæmt veðbanka Coolbet. Samsett mynd/Kristinn

Veðbankar telja Höllu Tómasdóttur sigurstranglega í forsetakosningunum, ef marka má stuðul hennar á vefsíðu vefbankans Coolbet. 

Stuðullinn segir til um ávöxtun peningsins sem veðjað er á ákveðinn frambjóðanda. Það er að segja því lægri sem stuðullinn þeim mun líklegra er talið að frambjóðandinn hljóti kjör. Þannig er stuðull Höllu 1.85, en stuðull Katrínar Jakobsdóttur 2.05.

Talsverður munur á sigurlíkum frambjóðenda

Í þriðja sæti yfir sigurstranglega frambjóðendur er Halla Hrund Logadóttir, en stuðull hennar er 6.00. Næst á eftir er Baldur Þórhallsson með stuðulinn 14.00 og þar á eftir Jón Gnarr með 20.00.

Einnig býðst fjárhættuspilurum að veðja á fleira en einungis sigurvegara kosninganna. Sé veðjað á að Katrín hljóti fleiri en 25,5% greiddra atkvæða er stuðullinn 1.70 og færri 2.00. 

Sömu prósentu atkvæða er miðað við í tilfelli Höllu. Stuðullinn á að hún fái fleiri en 25,5% greiddra atkvæða er 1.85 og einnig 1.85 að hún fái færri. 

Samkvæmt ofangreindum stuðlum er talið líklegra að Katrín hljóti fleiri en 25.5% atkvæða samanborið við Höllu, sem fer þvert á skjön við stuðulinn um sigurlíkur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert