Helga svarar Kára

Helga Þórisdóttir og Kári Stefánsson.
Helga Þórisdóttir og Kári Stefánsson. Samsett mynd

Helga Þóris­dótt­ir, for­setafram­bjóðandi sem er í leyfi frá störfum sem forstjóri Persónuverndar, segir að mál Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) gegn úrskurði Persónuverndar snúist ekki um sóttvarnir, heldur að ÍE hafi hafið vísindarannsókn áður en tilskilin leyfi lágu fyrir, þ.a.e.s. notað blóðsýni frá sjúklingum án þeirra samþykkis. 

Þetta ritar Helga í Facebook-færslu sem svar við yfirlýsingu Kára Stefánssonar, forstjóra ÍE. 

Kári sendi yfirlýsingu á fjölmiðla í gær vegna ummæla Helgu um stöðu ÍE í heimsfaraldrinum í viðtali á Rúv. 

Í janúar 2022 óskaði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sem er dótturfyrirtæki lyfjarisans Amgen, í tvígang eftir því að ríkisstjórn Íslands myndi lýsa vanþóknun sinni á nýlegri ákvörðun Persónuverndar. Þetta gerði hann eftir að hafa opinberlega hótað stofnuninni málshöfðun vegna sömu ákvörðunar,“ segir í færslu Helgu. 

Kári sagði í yfirlýsingu sinni í gær að hann hefði ekki hótað málshöfðun heldur hefði hann sagst „ætla að fara í mál til þess að fá hnekkt þess­ari einu ákvörðun Per­sónu­vernd­ar sem ég og gerði og það mál vann ég í Héraði“.

Gróf undan hlutverki Persónuverndar og Vísindasiðanefndar

Helga nefnir að Persónuvernd hafi gert athugasemd við það að ÍE hefði farið af stað með vísindarannsókn án þess að hafa tilskilin leyfi fyrir henni. 

Að gefnu tilefni skal bent á að Persónuvernd gerði engar athugasemdir við sóttvarnaráðstafanir yfirvalda í þessu sambandi. Þá skal jafnframt á það bent að margar og víðtækar rannsóknir voru framkvæmdar um heim allan í tengslum við Covid19. Þær voru gerðar með leyfi viðeigandi eftirlitsstofnana. Í þessari rannsókn braut Íslensk erfðagreining lög og nýtti bæði forsætisráðherra og sóttvarnalækni til að grafa undan hlutverki Persónuverndar og Vísindasiðanefndar.

Bréfið stílað á ÍE

Þá bendir Helga á að Katrín Jakobsdóttir, mótframbjóðandi hennar og fyrrverandi forsætisráðherra hefði stílað bréf sitt á forstjóra ÍE, en ekki sóttvarnalækni. 

Kári vill meina að Katrín hafi stutt sótt­varna­lækni í mál­inu, ekki ÍE sem var ein­göngu að vinna í umboði sótt­varna­lækn­is. 

Segir að í bréfinu hafi komið fram skýr skoðun ráðherrans á því hvernig Persónuvernd hefði átt að leysa úr málinu.

Það athugast hér að Persónuvernd er sjálfstæð stofnun með sérstaka stjórn. Hún tekur ekki við fyrirmælum frá stjórnvöldum eða öðrum aðilum.

Þá nefnir Helga að málinu hefur verið áfrýjað til Landsréttar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert