Lögregla hafi hvatt til afturköllunar kæru

Ingvar Sigurðsson er eigandi fyrirtækis sem brotist var inn í. …
Ingvar Sigurðsson er eigandi fyrirtækis sem brotist var inn í. Var hann hvattur af lögreglu til að draga kæru á niðurfellingu rannsóknar á málinu til baka að eigin sögn. Samsett mynd

Eigandi fyrirtækis í iðnaðarhverfi í Hafnarfirði segist hafa verið hvattur til þess að draga til baka kæru sína á niðurstöðu lögreglu um niðurfellingu máls til ríkissaksóknara. Maðurinn hafði þá kært niðurfellingu lögreglu á máli á hendur innbrotsþjófi sem gripinn var glóðvolgur á vettvangi. 

Að auki voru til myndbandsupptökur af manninum þegar hann braust inn í húsið. Því kom það flatt upp á Ingvar Sigurðsson, annan eiganda  Vallarbrautar ehf., þegar málið var látið niður falla og sagt í bréfi lögreglu að ekki væri „grundvöllur til rannsóknar.“

Sagði hann í samtali við mbl.is í mars að hann teldi það skrítin skilaboð til almennings að láta innbrot og skemmdarverk óátalin. Skemmdarverkin eru metin á um tvær milljónir króna að sögn Ingvars.   

Hvattur til að halda kæru til streitu 

Ingvar kærði niðurfellingu rannsóknar til ríkissaksóknar. Að sögn Ingvars var honum þá tjáð símleiðis af lögreglu að um mistök hafi verið að ræða og vildi hún rannsaka málið að nýju. Var óskað eftir því að Ingvar myndi draga kæruna til baka. Þannig gæti lögregla fengið málið til baka til sín og leiðrétt mistökin.  

Í tölvupóstssamskiptum Ingvars við embætti ríkissaksóknara má sjá að Ingvar ætlaði sér að draga kæruna til baka eftir samskipti sín við lögreglu. Hætti hann svo við að gera það.    

Var það í kjölfar þess að ríkissaksóknari tjáði manninum að þannig gengju málin ekki fyrir sig og var Ingvar því hvattur til að halda kærunni til streitu sem hann og gerði.

Úr varð að ríkissaksóknari tók kæruna til umfjöllunar og vísaði málinu að nýju til lögreglu til rannsóknar 15. mars.

Málið var ekki lengi í rannsókn því þegar er búið að gefa út ákæru og boðað var til þinghalds 30.apríl.

Rannsókn málsins tók stuttan tíma og er það nú komið …
Rannsókn málsins tók stuttan tíma og er það nú komið fyrir dóm. Ljósmynd/Colourbox

Saksóknari hringdi 

Vallarbraut selur landbúnaðartæki en innbrotið átti sér stað í september á síðasta ári. 

„Lögreglan bað mig um að draga kæru mína til ríkissaksóknara til baka. En svo hringdi saksóknari í mig og sagði að hlutirnir virkuðu ekki þannig,“ segir Ingvar.

Hann segir það sína tilfinningu að lögreglan hafi vitað að þeir myndu fá málið aftur til sín og því hafi þeir beðið hann um að draga kæruna til baka.

„Þeir sögðu við mig að þeir vildu fá málið aftur til að leiðrétta mistök,“ segir Ingvar.  

Var að rista sér brauð 

Forsaga málsins er sú að þjófurinn var gripinn glóðvolgur þegar tveir starfsmenn komu til vinnu í september á síðasta ári.

Innbrotsþjófurinn var að rista sér brauð í eldhúsaðstöðu fyrirtækisins þegar komið var að manninum. Hann gerði sig líklegan til að ráðast á annan þeirra en úr varð að þjófurinn varð undir. Var honum haldið þar til lögregla kom á svæðið og fjarlægði manninn.

Aðkoman var miður geðsleg og hafði öllu verið rótað til, unnar skemmdir á innanstokksmunum og tækjum og rúða brotin til að kom­ast inn húsnæðið. Auk þess var búið að setja dót í tösku sem þjófurinn hafði að öllum líkindum ætlað að taka með sér. 

Aðkoman var miður góð.
Aðkoman var miður góð. Ljósmynd/Aðsend

Kannast ekki við símtal 

Helgi Gunnarsson, lögreglufulltrúi hjá rannsóknardeild lögreglunnar í Hafnarfirði, kannast ekki við að lögreglan hafi hringt í Ingvar til þess að hvetja hann til þess að fella kæru til ríkissaksóknara niður.

Þá segir hann að ákvörðun um að fella málið upphaflega niður liggi hjá ákærusviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og getur ekki svarað til um það hvort símtal hafi borist frá ákærusviði til Ingvars.

Ekki náðist á ákærusvið lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við vinnslu fréttarinnar.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert