„Á mörkunum að þetta geti talist hret“

Úrkomuspá á hádegi á Hvítasunnudag.
Úrkomuspá á hádegi á Hvítasunnudag. Kort/Veðurstofa Íslands

Veðurspáin fyrir Hvítasunnuhelgina, fyrstu ferðahelgi margra landsmanna, er ekkert sérlega góð en snjóað gæti á fjallvegum fyrir norðan og austan.

„Það er svona á mörkunum að þetta geti talist hret en það má segja að veðurspáin sé ekkert spes,“ segir Teitur Arason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Það snýst til norðanáttar á landinu á morgun með björtu veðri sunnan heiða þar sem hitinn gæti náð um tíu stigum þegar best lætur, en á norðurhelmingi landsins er spáð smávægis éljum og hita frá 0-5 stigum að sögn Teits.

„Norðurhelmingur landsins verður svalur á morgun en suðurhelmingurinn verður þurr og sæmilega bjartur,“ segir Teitur.

Snjór á fjallvegum 

Það verður svo breyting á veðrinu á Hvítasunnudag. Þá kemur lægð upp að suðurströndinni og hún mun senda úrkomusvæði yfir landið með austanátt.

„Það mun ekki ná að hlýna nógu skarpt og það gæti snjóað í fjöll á norðan- og austanverðu landinu og viðbúið að það verði einhver slydda í byggð.“

Teitur segir að það megi búast við hríðaveðri á fjallvegum á Austfjörðum og á Mývatnsöræfum en talsvert mikilli rigningu sunnan megin á landinu. Hann segir að víðast hvar verði strekkingsvindur á sunnudaginn og það gæti slegið í hvassviðri í austanáttinni sunnan til á landinu.

Að sögn Teits heldur lægðin áfram til norðurs fyrir vestan land á mánudag, annan í Hvítasunnu, og hún mun færa yfir landið hlýrra og rakara loft.

„Það verður þungbúið og víða væta um landið á mánudaginn með hita frá fimm til tíu stigum,“ segir Teitur og bætir því að vorkoman hér á landi sé oftar en ekki skrykkjótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert