„Þær áttu bara að læra sína lexíu“

Þórey Einarsdóttir hefur starfað hjá Konukoti frá stofnun athvarfsins og …
Þórey Einarsdóttir hefur starfað hjá Konukoti frá stofnun athvarfsins og segir miklar breytingar hafa orðið á viðhorfi samfélagsins til heimilislausra kvenna á þeim tíma. mbl.is/Arnþór

Fyrstu ár athvarfsins Konukots einkenndust að miklu leyti af gagnrýni frá samfélaginu á mannúðlegu nálgun athvarfsins og góðmennsku þeirra gagnvart heimilislausu konunum sem gistu hjá þeim.

„Svona var stemmingin á þessum tíma. Það var svolítið bara harka, þær áttu bara að læra sína lexíu,“ segir Svava Jóhannesdóttir um viðhorf samfélagsins gagnvart heimilislausum konum á þeim tíma sem Konukot hóf störf sín fyrir tuttugu árum, en Konukot er fyrsta og eina athvarfið fyrir heimilislausar konur.

Þórey Einarsdóttir hlaut mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar á fimmtudaginn, en verðlaunin eru veitt árlega til þeirra sem á eftirtektarverðan hátt hafa staðið vörð um mannréttindi, fyrir ómetanlegt starf í þágu heimilislausra kvenna. 

Í samtali við mbl.is segir Þórey ásamt öðrum konum á bak við Konukot, Brynhildi Jensdóttur, Rut Rúnarsdóttur og Svövu Jóhannesdóttur, frá því hvaða áhrif athvarfið og Þórey hafa haft á íslenskt samfélag.

Borgarstjóri afhendir Þóreyju mannréttindaverðlaunin.
Borgarstjóri afhendir Þóreyju mannréttindaverðlaunin. mbl.is/Arnþór Birkisson

Brautryðjandi í framkomu samfélagsins

„Þórey var leiðandi afl í að þjónusta þennan hóp út frá virðingu og mannúð og mannlegri reisn,“ segir Svava og lýsir því hvernig Þórey var brautryðjandi í að breyta framkomu samfélagsins við þau sem eru heimilislaus. 

Spurð um þau vandamál sem hafi steðjað að þeim hópi kvenna sem leitað hefur ásjár athvarfsins í gegnum árin segir Þórey hópinn vera mjög blandaðan.

Þar sem Konukot er enn í dag eina athvarfið fyrir heimilislausar konur og það er ekki að aðstoða neinn sérstakan hóp kvenna hafa þær sem gista þar mjög fjölbreyttan bakgrunn og ástæður fyrir komunni að sögn Þóreyjar.

Þær nefna að stór ástæða sé fjölþættur vandi, semsagt þegar fólk glímir við fleiri en einn vanda. Í þessu tilfelli þýðir það að margar konurnar glíma þá til dæmis við bæði vímuefna- og geðrænan vanda.

Trúðu ekki að það væru heimilislausar konur á Íslandi

Áður en athvarfið var opnað segja konurnar frá því að fólk trúði því ekki að það væru heimilislausar konur á Íslandi og að Þórey hafi þurft að sanna það. Í byrjun hafi aðeins verið fjórar konur í athvarfinu en að gestum þess hafi stöðugt fjölgað milli ára.

Nefna þær meðal annars að eitt kvöld hafi átján konur komið í athvarfið og þurftu sumar þeirra þá að sofa á sófum því það var ekki nóg pláss fyrir þær allar.

Þórey Einarsdóttir hlaut mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar í vikunni fyrir störf sín …
Þórey Einarsdóttir hlaut mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar í vikunni fyrir störf sín í Konukoti. mbl.is/Arnþór

Fengu að meðhöndla í þvottahúsinu

Konurnar segja frá leiðum sem Þórey kom með til að hjálpa gestum Konukots sem glímdu við fíkn þannig að mannúð væri höfð í forgrunni. Nefna þær að þegar reglur giltu um að aðeins mætti meðhöndla fíkniefni utan heimilisins og kalt var í veðri hafi Þórey komið með lausn, sem strangt til tekið fylgdi reglunum, án þess að senda konurnar út í kuldann. Hún leyfði þeim að nota þvottahúsið til þess að meðhöndla efnin, en bað þær um að halda handleggjunum fyrir utan hurðina á meðan.

Gestirnir fengu að geyma búnaðinn sinn þar en þegar Þórey sá að ein þeirra væri með notaðan búnað útvegaði hún henni hreinan búnað til að nota í staðinn.

Starf af þessu tagi getur verið mjög krefjandi og þarf því mikinn metnað til þess að sinna því í jafn mörg ár og Þórey hefur gert. Spurð hvað hafi upphaflega vakið áhuga hennar á mannréttindarstörfum rifjar hún upp gamla sögu. Segir Þórey frá því að þegar hún bjó í miðbænum sá hún einu sinni eldri konu ganga upp að öllum ruslatunnunum á Laugarveginum að leita sér að einhverju sem gæti gagnast henni. Stuttu síðar sá Þórey auglýsingu um starf sem ráðskona í Konukoti og sótti hún um.

Síðar komst hún að því að konan sem hún sá hafi átt sér athvarf og að félagsþjónusta Reykjavíkurborgar hafi haldið vel utan um hana. „Svo voru það aftur á móti konurnar sem voru háðar, sérstaklega var það í byrjun alkóhóli, sem að var kannski pínu krefjandi að þjónusta. Þannig að þær komu í Konukot," segir Þórey.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert