Mæta með lögfræðing á prófsýningu

Nemendur í framhaldsskóla mæta oftar með aðstandendum í prófsýningar en …
Nemendur í framhaldsskóla mæta oftar með aðstandendum í prófsýningar en áður. Dæmi eru um að lögfræðingur tali máli nemenda. Samsett mynd

Sífellt færist í aukana að forráðamenn komi á prófsýningar hjá börnum á framhaldsskólaaldri til að reyna að hafa áhrif á námsmat kennara. Þá eru nokkur dæmi um að lögfræðingar hafi fylgt framhaldsskólanemendum á prófsýningar og krafist þess að einkunn verði bætt. 

Hingað til hefur mest borið á þrýstingi á kennara vegna einkunna barna við lok grunnskóla. Þetta á þó ekki síður við þegar kemur að námsmati framhaldsskólanemenda sem eiga það t.a.m. á hættu að sitja eftir og færast ekki upp um bekk vegna frammistöðu á námsönninni.

Í minnst einu tilfelli var kennara hótað málsókn vegna einkunnar en það reyndist byggja á þekkingarleysi á því hvaða úrræði voru í boði. Þannig stendur í aðalnámskrá að hægt sé að óska eftir yfirferð utanaðkomandi prófdómara vegna einkunnar. Úrskurður hans er endanlegur. 

Makalaus staða fyrir kennara 

„Ég hef heyrt þetta frá skólameisturum [að lögfræðingar tali máli nemenda] og þetta er makalaus staða fyrir kennara að vera í,“ segir Guðjón Hreinn Hauksson, formaður félags framhaldsskólakennara.

Hann segir engar tölur yfir það hversu oft kennarar hafa mátt sitja undir aðfinnslum lögfræðinga en vísbendingar eru um að þetta sé að aukast.

Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara.
Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara.

Hann segir að einkunnir nemenda samanstanda af mörgum ólíkum þáttum og byggjast á vinnu með nemendum yfir heila önn.

„Því er tómt mál að reyna að fá einhvern lögfræðing út í bæ til þess að leggja mat á einkunn. En það eru galnar aðstæður fyrir kennara að þurfa að standa skil á því fyrir einhverjum lögfræðingum hvernig þeir standa að sinni einkunnagjöf,“ segir Guðjón.

Hann segir nemendur eiga rétt á því að fá útskýringar á einkunn, sem gjarnan er veitt í tíma eða við prófsýningu.

Einkunnir eru stjórnvaldsúrskurðir 

Einkunnir úr skóla eru stjórnvaldsákvarðanir í skilningi laganna. Dæmi er um að ágreiningur um einkunn hafi verið tekinn fyrir hjá Umboðsmanni Alþingis.

Árið 2009 var erindi sent til umboðsmanns eftir að einkunnin 5 var rituð á einkunnarblað nemanda en í prófsýningu var nemanda tjáð að mistök hefðu verið gerð og að rétt einkunn væri 4. Nemandinn fór með málið fyrir umboðsmann sem staðfesti rétt skólans til að breyta einkunninni.

Setur kröfur á gagnsæi 

Helga Kristín Kolbeins, formaður skólameistarafélags Íslands (SMÍ), segir fá dæmi þess efnis að lögfræðingar tali máli nemenda en tilkoma þeirra sé ágæt áminning um að hafa reglur um gagnsæi einkunna skýrt. Segir hún gagnsæið gott heilt yfir.   

Helga Kristín Kolbeins, formaður skólameistarafélags Íslands (SMÍ).
Helga Kristín Kolbeins, formaður skólameistarafélags Íslands (SMÍ). Ljósmynd/Aðsend

„Yfirleitt eru mörg verkefni undir einni einkunn og það er mikilvægt að auðvelt sé fyrir nemendur að átta sig á því hvernig einkunnin byggist upp. Gagnsæið þarf að vera gott og auðskilið fyrir þann sem skoðar á hverju einkunnargjöfin byggir. 

Hún segir þó að reglulega komi í ljós villur í prófsýningum og mikilvægt að nemendur skoði prófin sín.

Kennarar eiga í vök að verjast 

Steinn Jóhannsson, rektor við Menntaskólann við Hamrahlíð, segir að vart hafi orðið við aukna neikvæðni í samskiptum á prófsýningum. Steinn starfaði áður á vettvangi háskólanna og lenti sjálfur í því nemandi mælti sér mót við hann og kom svo með lögfræðing með sér. 

„Það sem ég hef skynjað á síðustu árum er að nemendur eru jafnvel að mæta með foreldra á prófsýningu og harkan er orðin þó nokkur. Kennararnir eiga jafnvel í vök að verjast. Þeir eru gagnrýndir fyrir vinnubrögðin, gagnrýndir fyrir að hafa fellt barnið þeirra o.s.frv,“ segir Steinn.

Hann segir að kennarar hafi jafnvel upplifað dónaskap frá foreldrum.

„Suma kennara kvíðir fyrir prófsýningardegi vegna þessarar auknu hörku í samskiptum,“ segir Steinn.

Steinn Jóhannsson, rektor MH.
Steinn Jóhannsson, rektor MH. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Sérfræðingur“ hafði samband 

Að sögn Steins hefur einnig borið á því í auknum mæli að foreldrar sendi pósta þar sem gerðar eru athugasemdir við einkunnir.

Jafnvel eru dæmi að gerð hafi verið athugasemd við námsmat á þeirri forsendu að aðstandandi telji sig vita betur.

„Í því tilviki hafði aðstandandi samband sem sagði sig sérfræðing í námsefninu og taldi sig vita betur en kennarinn,“ segir Steinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert