Ráðist á ferðamenn: „Það var blóð alls staðar“

Ferðalangarnir voru að kaupa ávexti þegar skothríðin hófst. Mynd úr …
Ferðalangarnir voru að kaupa ávexti þegar skothríðin hófst. Mynd úr safni. AFP/Sanaullah Seiam

Þegar franski túristinn, Anne-France Brill, heyrði fyrstu byssuhvellina hélt hún að hátíðarhöld væru hafin á afganska markaðinum sem hún og ferðafélagar hennar stöldruðu við til þess að kaupa ávexti. 

Þá heyrði hún einn félaganna öskra. „Ég áttaði mig á því að blóð þakti maga hennar“.

Brill sat í sendiferðabifreið á kynningarferðalagi um borgina Bamyan í Afganistan á föstudag þegar vopnaðir menn hófu skothríð nærri bifreiðinni. 

Frá Kabúl.
Frá Kabúl. AFP/Wakil Kohsar

Föl sem nár

Brill særðist ekki en skot hæfði konu frá Litháen sem sat við hlið Brill: „Hún var föl sem nár,“ sagði Brill í samtali við AFP-fréttaveituna.

Skothríðin varði einungis örfáar sekúndur en við tók margar mínútna bið þar sem fólk lá í felum á gólfi bifreiðarinnar. 

„Það var blóð alls staðar,“ sagði hún. 

Maður frá Noregi særðist og bílstjóri bifreiðarinnar lét lífið. Bílstjórinn var einn af þeim sex sem féllu í skothríðinni: Þrír túristar frá Spáni, tveir menn frá Afganistan sem störfuðu fyrir hópinn og öryggisvörður. 

Á endanum fylltust göturnar af Talíbönum sem rýmdu svæðið og lokuðu fyrir umferð. 

Flóttinn til Kabúl

Hinir særðu voru ferjaðir í bílum Talíbana til höfuðborgarinnar Kabúl sem var í um 180 kílómetra fjarlægð.

Brill sagði að hún og aðrir sem særðust ekki í árásinni hefðu fengið öryggisfylgd til Kabúl þar sem að sendinefnd Evrópusambandsins tók á móti þeim. 

Áður en þau yfirgáfu svæðið reyndu þau að taka sem mest af munum hinna látnu og særðu. 

„Allt var þakið í blóði, en þetta er svo mikilvægt fyrir fjölskyldurnar, svo við reyndum að taka sem mest.“

Lík Spánverjanna þriggja eiga að koma til Spánar í dag. Þá verða þeir sem særðust í árásinni fluttir frá Kabúl í dag. 

Frá Kandahar í Afganistan.
Frá Kandahar í Afganistan. AFP/Sanaullah Seiam

Brill og tveir aðrir frá Bandaríkjunum flugu frá Kabúl til Dúbaí og greinilegt var að álagið eftir árásina fór misvel í suma: 

„Ég hágrét þegar ég var að sækja töskurnar mínar í Dúbaí. Ég sá töskuna mína á beltinu hringsólast og allt í einu, hvellur.“

„Ég þurfti að segja við sjálfa mig. Þetta er búið, ég er örugg,“ sagði Brill við AFP í síma frá Dúbaí. 

Ferðamannaland í mótun 

Brill hafði lengi dreymt um að heimsækja Afganistan og tveimur árum eftir stjórnarbyltingu Talíbana varð draumurinn að möguleika. 

Brill sem er vön því að ferðast ein kaus að þessu sinni að ferðast í hópi meðvituð um þau vandræði sem kunna að fylgja ferðalagi til Afganistans. Allt frá bágum innviðum til Talíbanastjórnarinnar. 

Ferðafélagarnir voru nýbyrjaðir að kynnast þegar skothríðin hófst, en þau komu til landsins á miðvikudag.

Fyrir árásina deildu ferðamennirnir myndum Í sameiginlegri spjallrás á samskiptamiðlinum WhatsApp af fyrstu máltíðunum í Afganistan.

Eftir árásina er spjallrásin orðin að stuðningshópi, þar sem að þau deila fregnum af samferðamönnunum sem særðust í árásinni. 

Árásin á ferðahópinn er fyrsta mannskæða árásin frá því að Talíbanar tóku við völdum í landinu árið 2021. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert