Hluti peninganna kominn í leitirnar: Íslendingur í haldi

Ljósmynd/Colourbox

Karlmaður sem hefur verið handtekinn vegna rannsóknar á innbroti og þjófnaði á fjármunum úr verðmætaflutningabíl Öryggismiðstöðvarinnar í Hamraborg í Kópavogi í mars er Íslendingur samkvæmt heimildum mbl.is.

Fram kom í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í morgun að maðurinn, sem er um fertugt, hafi í gær verið úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald, eða til 7. maí. 

Einn maður hefur verið handtekinn vegna þjófnaðarmálsins í Hamraborg í …
Einn maður hefur verið handtekinn vegna þjófnaðarmálsins í Hamraborg í mars. mbl.is/Árni Sæberg

Yfirheyrslur standa yfir

Yfirheyrslur yfir manninum standa yfir en samkvæmt heimildum mbl.is fannst hluti af stolnu fjármunum í fórum mannsins. Rannsókn málsins er enn í fullum gangi en sjö lögreglumenn hafa meira og minna sinnt þessu máli frá því það kom upp. 

Tveir menn stálu á bilinu 20 til 30 milljónum króna úr verðmætaflutningabifreiðinni fyrir utan veitingastaðinn Catalinu þann 25. mars. Í kjölfarið lýsti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu eftir tveimur mönnum á dökkgráum Toyota Yaris með tveimur skráningarnúmerum sem hafði verið stolið af öðrum ökutækjum.

Þjófarnir höfðu á brott með sér um 20-30 milljónir króna sem voru í tveimur töskum í verðmætaflutningabifreiðinni. Alls tóku þeir sjö töskur úr bílnum, sem fundust á víðavangi við Esjumela og í Mosfellsbæ.

Tilraun gerð til að koma lituðum peningum í umferð

Sérstakar litasprengur voru í töskunum sem eiga að springa og eyðileggja verðmæti ef tilraun er gerð til að nálgast þau og eins og fram hefur komið sprakk litasprengja í annarri af tveimur töskum sem innihélt peninga.

Í gær bárust svo af því fregnir af því að grunur væri um að tilraun hefði verið gerð til að koma lituðum peningum í umferð. Hafði lögregla fengið ábendingar um litaða peninga í umferð, meðal annars á stöðum sem reka spilakassa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert