Enn að fá vísbendingar um seðla í umferð

Þjófarnir höfðu á brott með sér um 20-30 milljónir króna …
Þjófarnir höfðu á brott með sér um 20-30 milljónir króna úr ráninu í Hamraborg. mbl.is/Árni Sæberg

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er enn að fá vísbendingar um peningaseðla í umferð í tengslum við þjófnaðinn í Hamraborg í Kópavogi fyrir tveimur mánuðum síðan.

„Við erum einstaka sinnum að fá vísbendingar um peningaseðla sem eru að finnast í umferð sem hefur verið átt við og jafnvel talið að hafi verið klippt af og séu eitthvað litaðir. Það er ágætt að fólk sé á varðbergi gagnvart því,” segir Heimir Ríkharðsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, spurður út í rannsókn málsins.

20 til 30 milljónum króna var stolið úr öryggisbifreið á vegum Öryggismiðstöðvarinnar í lok mars. Enn vantar stóran hluta peninganna sem var stolið, eða um tvo þriðju hluta.

Maðurinn sem var handtekinn vegna málsins var með litaða peninga í fórum sínum og var að reyna að koma þeim í umferð þegar lögreglan hafði hendur í hári hans. Manninum var sleppt úr haldi fyrr í mánuðinum en lögreglan hefur engu að síður talað við hann síðan þá, að sögn Heimis.

Bíða eftir frekari gögnum 

Áframhaldandi rannsókn er í gangi og verið er að vinna úr gögnum, bætir hann við.

Spurður hvort það styttist í að rannsókn ljúki í ljósi þess að rúmir tveir mánuður eru liðnir frá því málið kom upp segir Heimir að það gerist þegar gögnin verða komin frá tæknideildinni og búið verður að vinna úr þeim.

Yaris-bifreiðin sem þjófarnir voru á þegar þeir frömdu ránið er enn ófundin að sögn Heimis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert