„Erum að eltast við alla möguleika“

Hamraborgarránið svonefnda er enn óupplýst.
Hamraborgarránið svonefnda er enn óupplýst. mbl.is/Árni Sæberg

Lögreglan vinnur enn að rannsókn Hamraborgarránsins svonefnda þar sem 20-30 milljónum króna var stolið úr öryggisbifreið á vegum Öryggismiðstöðvarinnar.

Lögreglan sleppti manni úr haldi fyrr í þessum mánuði en hann hafði þá setið í varðhaldi í tíu daga. Að sögn Heimis Ríkarðssonar lögreglufulltrúa hefur maðurinn áfram stöðu grunaðs manns en ekki þótti ástæða til að halda honum lengur. Búið er að yfirheyra hann nokkrum sinnum.

„Málið er enn til rannsóknar og við erum að eltast við alla möguleika og fikra okkur áfram,“ segir Heimir við mbl.is en ránið átti sér stað á bílastæði í Hamraborg í Kópavogi í lok mars.

Maðurinn sem var í gæsluvarðhaldi var handtekinn eftir að hann reyndi að koma lituðum peningum sem hann var með í fórum sínum í umferð.

Yaris-bifreiðin sem þjófarnir voru á þegar þeir frömdu ránið er enn ófundin að sögn Heimis. Bifreiðin var með tvær mismunandi númeraplötur en báðum skráningarnúmerunum var stolið f öðrum ökutækjum.

„Við höfum ekki haft upp á bifreiðinni enn sem komið er en hann er kannski ekki stórt atriði lengur,“ segir Heimir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert