Ræddu í grafarþögn og myrkri eftir að rafmagni sló út

Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, segir ráðstefnuna hafa gengið vel …
Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, segir ráðstefnuna hafa gengið vel þrátt fyrir rafmagnsleysi. Ljósmynd/Aðsend

Rafmagnsleysið á fimmtudag hafði áhrif á ýmsa viðburði, þar á meðal janúarráðstefnu Festu – miðstöðvar um sjálfbærni sem fram fór í Hörpu.

Framkvæmdastjórinn Elva Rakel Jónsdóttir segir að dagskráin hafi næstum verið búin.

„Pallborðsumræðurnar voru að fara að byrja, með þátttöku manneskju í Brussel á skjánum. Svo datt allt í einu allt saman út og það fyrsta sem manni datt í hug var að þetta hefði verið einhver rafmagnsbilun innanhúss. Það kom þó fljótlega í ljós þegar fólk fór að líta í símana sína að rafmagnsleysið náði víðar um borg.“

Góður rómur var gerður að máli frummælenda.
Góður rómur var gerður að máli frummælenda. Ljósmynd/Aðsend

Tvö rafmagnskerti eina lýsingin

Hún segir að ráðstefnan hafi haldið áfram þar sem tvö rafmagnskerti voru látin ganga á milli mælenda á sviði.

„Þetta var bara notalegt. Þar sem við gátum ekki notað hljóðnema, báðum við þá fjögur hundruð sem voru í salnum að hafa grafarþögn svo heyrðist í þeim sem voru að tala.“

Allt gekk þetta í sóma þar til að brunaboð kom í húsið og gestir voru beðnir að yfirgefa húsið.

„Þá ætluðu allir gestir að rjúka út, þrátt fyrir að tæknimenn hafi fullvissað fólk um að enginn eldur væri í húsinu. Þá var auðséð að ekki var hægt að halda þessari dagskrá áfram, þannig að gestir fóru í Hörpuhorn þar sem við höfðum skipulagt móttöku með drykkjum. Það gekk allt saman vel enda naut dagsbirtu þar.“

Fjölbreyttur hópur sótti janúarráðstefnu Festu.
Fjölbreyttur hópur sótti janúarráðstefnu Festu. Ljósmynd/Aðsend

Hætt að vera gæluverkefni

Dagskrá janúarráðstefnunnar var þétt skipuð og þegar Elva Rakel er spurð hvað henni sé minnistætt eftir daginn segir hún:

„Ég tek með mér af ráðstefnunni það sem fram kom í máli leiðtoga lítilla og stórra fyrirtækja sem tóku til máls. Mér fannst þau öll tala bæði af hugrekki og einlægni. Andri Guðmundsson, í Vaxa, talaði um seigluna sem þyrfti í sjálfbærniverkefni fyrirtækja. Margir töluðu um að um leið og hætt væri að nálgast sjálfbærni sem gæluverkefni fyrirtækja, heldur að setja hana í forgang, þá fara fyrirtæki að uppskera bæði í rekstrarhagræði og aukinni sölu.“

Félagsleg sjálfbærni var eitt af meginstefum ráðstefnunnar.
Félagsleg sjálfbærni var eitt af meginstefum ráðstefnunnar. Ljósmynd/Aðsend

Félagsleg sjálfbærni aðalstefið

Elva Rakel segir að mikið hafi verið rætt um félagslega sjálfbærni, það er að samfélög verði að hafa ákveðna félagslega seiglu eigi þau að geta náð í mark með stór markmið í loftslagsmálum og öðrum hnattrænum verkefnum.

„Ég sá það að með því að ávarpa sjálfbærni út frá þessum vinkli var meiri breidd meðal fundargesta og nýir aðilar sem láta sig málið varða. Það má segja að sannarlega hafi reynt á seigluna hjá okkur þegar rafmagnið datt út og dagskránni var haldið áfram,“ segir Elva Rakel og hlær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert