Íslenskir fulltrúar funda með UNRWA í dag

„Eðlilegt og nauðsynlegt er að kalla eftir skýringum og samræma …
„Eðlilegt og nauðsynlegt er að kalla eftir skýringum og samræma kröfur um viðbrögð flóttamannaaðstoðarinnar,“ kemur fram í færslu Bjarna. Samsett mynd/AFP/mbl.is/Eggert

Fulltrúar utanríkisþjónustunnar funda í dag með Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) í kjölfar ásakana um tengsl fyrrverandi starfsmanna stofnunarinnar við hryðjuverk Hamas á Ísrael 7. október.

Starfsmennirnir voru látnir fara í kjölfar ásakana og er rannsókn sögð hafin á þeim.

Ef fullnægjandi skýringar berast og sammælst er um nauðsynleg viðbrögð stofnunarinnar þá ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að stuðningur Íslands við stofnunina, sem hefur nú verið settur á ís, haldi áfram.

Þetta kemur fram í færslu Bjarna Benediktssonar utanríkisráðherra á Facebook.

Talsverð vanstilling að mati ráðherrans

Eðlilegt og nauðsynlegt er að kalla eftir skýringum og samræma kröfur um viðbrögð flóttamannaaðstoðarinnar,“ kemur fram í færslu Bjarna.

Segir ráðherrann jafnframt viðbrögð fjölmiðla og stjórnarandstöðunnar við fréttum af frystingu framlaga Íslands til stofnunarinnar hafa einkennst af talsverðri vanstillingu.

„Talað er á þann veg að Ísland svelti nú fólk á svæðinu, frysting framlaga meðan samráð fer fram sé óásættanleg og jafngildi jafnvel „þátttöku í þjóðarmorði”.

Varla þarf að hafa mörg orð um þessar upphrópanir, en mér þykir hins vegar rétt að árétta eftirfarandi; Það er ekki sjálfgefið að íslensk stjórnvöld sendi skattfé í stórum stíl á átakasvæði í blindni. Stofnunin lýtur umfangsmiklu eftirliti SÞ og stuðningsríkja, ekki síst Bandaríkjanna, en þegar ásakanir sem þessar koma upp er það beinlínis skylda mín sem ráðherra að tryggja að peningarnir renni þangað sem ætlast er til, og ekkert annað,“ ritar Bjarni.

Myndu gera umræðunni gott

„Ef við fáum fullnægjandi skýringar og erum sammála mati um nauðsynleg viðbrögð stofnunarinnar þá er ekkert því til fyrirstöðu að stuðningur okkar haldi áfram. En ég lít á það sem skyldu mína að ganga úr skugga um eðlileg viðbrögð og ráðstafanir til framtíðar.“
Hann segir Ísland styðja mannúðaraðstoð á svæðinu í gegnum ýmsar stofnanir og engin áform séu um að draga úr þeim stuðningi.
„Það á við í þessu máli líkt og svo oft áður, að lítils háttar yfirvegun og stilling myndu gera umræðunni gott.“

Menn á vergangi á Gasa ýta vagni með korni sem …
Menn á vergangi á Gasa ýta vagni með korni sem þeir fengu frá UNRWA. Nokkrir starfsmenn stofnunarinnar liggja undir þungum ásökunum Ísraelsmanna. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert