Fátækt í Bónusbirtu

Listamaðurinn Sæmundur Þór er þar með sýningarstjóranum Oddu Júlíu Snorradóttur.
Listamaðurinn Sæmundur Þór er þar með sýningarstjóranum Oddu Júlíu Snorradóttur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Af hverju er Ísland svona fátækt? er yfirskrift sýningar listamannsins Sæmundar Þórs Helgasonar í Nýlistasafninu. Þar hefur Sæmundur skapað verk sem byggist á viðtölum við vegfarendur í Kringlunni. Sæmundur og Odda ­Júlía Snorradóttir sýningarstjóri völdu síðan í sameiningu verk úr safneign Nýlistasafnsins sem kveikju að samtali við verk ­Sæmundar.

„Hugmyndin að baki verkinu er að taka þá ímynd sem Ísland hefur skapað sér út á við, draga hana í efa og tala við fólkið í landinu um fátækt á Íslandi,“ segir Sæmundur. Sæmundur fór í Kringluna fyrir jól og tók viðtöl við fólk, sem valið var af handahófi, og spurði það fjögurra spurninga: Hvað er fátækt? Er fátækt á Íslandi? Hvers vegna?/Hvers vegna ekki? Hvernig getur Ísland risið upp úr fátækt? Í bakgrunni mátti sjá glæsilegar jólaskreytingar Kringlunnar sem óneitanlega minna á ríkidæmi.

Sæmundur segir ýmislegt í svörum fólks hafa komið á óvart. „Það kom mér á óvart hvað fólk var tilbúið að tala um fátækt, sem manni finnst oft vera ákveðið tabú. Það kom líka á óvart hversu sammála fólk var um að hér væri fátækt. Af þeim 25 einstaklingum sem ég talaði við var einungis einn sem sagði að hér fyndist ekki fátækt en það var glettni í svarinu.

Enn eitt sem kom á óvart í svörunum er að fólk lítur ekki endilega á fátækt sem fjárhagslega heldur líka sem heilsufarslega eða andlega og félagslega. Margir vildu flokka einsemd sem fátækt.

Svörin við því hvers vegna fátækt sé á Íslandi voru á ýmsa vegu. Sumir telja að fátækt sé á ábyrgð einstaklingsins, fólk leiðist út í fátækt vegna fjölskylduvandamála, fíkniefnavanda eða af öðrum ástæðum. Aðrir sjá fátækt sem kerfislegan vanda, sem stjórnvöld eiga að geta fyrirbyggt. Sem listamanni finnst mér meira spennandi að spyrja spurninga í staðinn fyrir að vera með yfirlýsingar, en ef ég má vera með yfirlýsingu hér þá er ég sammála því að fátækt sé kerfislegur vandi. Í fyrra var gerð skýrsla að beiðni Halldóru Mogensen og þar kom fram að það eru um 50.000 einstaklingar sem lifa undir fátæktarmörkum og það eftir bætur. Það kom mér á óvart að í litlu samfélagi eins og okkar þrífist fátækt á meðan landið sjálft er ríkt.“

Svörum viðmælendanna í Kringlunni er dreift á þrjá skjái í sýningarsal Nýlistasafnsins. Verk úr safneigninni voru síðan valin á sýninguna út frá þeim svörum sem fengust í viðtölunum.

Um 600 Bónus-plastpokar eru umgjörð sýningarinnar en þeir eru festir á glugga salarins í reglubundnu mynstri. Plastpokarnir eru festir saman og þegar ljós fellur á þá verða þeir að birtuverki, skapa Bónusbirtu,“ segir Sæmundur.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert