Veruleg ófærð: Innan við 100 metra skyggni

Það brestur á með vestanátt 15 til 22 metrum á sekúndu suðvestanlands um og upp úr hádegi og gera má ráð fyrir að slagviðri gangi yfir á um þremur klukkustundum.

Búast má við miklu skafrenningskófi og skyggni verður um tíma um og innan við 100 metrar, einkum frá Borgarnesi og austur fyrir Vík en ekki síst á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu.

Bæði verður blint og hætt við verulegri ófærð jafnt innanbæjar sem og úti á vegum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar.

Þá segir á vef Vegagerðarinnar, umferdin.is, að vetrarfærð verði um allt land í dag og víða verulega skert skyggni, sérstaklega á fjallvegum.

Gul viðvör­un tek­ur gildi upp úr há­degi fyr­ir höfuðborg­ar­svæðið, Faxa­flóa, Breiðafjörð og Suður­land og um miðjan dag fyr­ir Suðaust­ur­land.

Staðan klukkan 8 í dag:

Höfuðborgarsvæðið

Hálkublettir og éljagangur eru á flestum leiðum á höfuðborgarsvæðinu.

Krýsuvíkurvegur er lokaður. Óvissustig er á Reykjanesbraut frá klukkan 9 til 20 og gæti henni verið lokað með stuttum fyrirvara.

Suðvesturland

Hálka og snjóþekja er víða á vegum með éljagangi eða skafrenningi. Eitthvað er um hálkubletti og krapa. Þæfingur er á Kjósarskarði og á Vatnsleysustrandarvegi. Þungfært er á Garðskagavegi.

Suðurstrandarvegur klukkan 6.43
Óvissustig er á Suðurstrandarvegi, veginum um Kjalarnes, á Mosfellsheiði, í Þrengslum og á Hellisheiði frá klukkan 9 til 20 og gæti vegum verið lokað með stuttum fyrirvara.

Þá er einnig óvissustig á Grindavíkurvegi frá klukkan 9 til 20 og gæti honum verið lokað með stuttum fyrirvara. Neyðarstig er í gildi í Grindavík og leiðir þangað eru lokaðar þeim sem ekki hafa sérstakt leyfi til að fara um svæðið. Um er að ræða Grindavíkurveg (43) sunnan Svartsengis, Suðurstrandaveg (427) vestan Krýsuvíkurgatnamóta og Nesveg (425) við Brimketill.

Vetrarþjónustu á lokuðum vegum á Suðurnesjum er sinnt í samráði við almannavarnir. Nánari upplýsingar um færð og ástand á lokuðum vegum er hægt að nálgast í gegnum símanúmer 1777.

Suðurland

Óvissustig er í gildi á eftirfarandi vegum á Suðurlandi frá klukkan 9 til 20 og gætu þeir lokað með stuttum fyrirvara: á Hringvegi (1) milli Hveragerðis og Markarfljóts, Lyngdalsheiði (365), í Uppsveitum Suðurlands og á Árborgarhring.

Snjóþekja og éljagangur er á flestum leiðum en eitthvað er um þæfingsfærð, hálku og krapa.

Vesturland

Óvissustig er á veginum við Hafnarfjall, Akrafjallshring, á Mýrum, í Hvalfirði og í Borgarfirði frá klukkan 9 til 20 og gæti þeim verið lokað með stuttum fyrirvara.

Snjóþekja eða þæfingur er á flestum leiðum og ófært er á Útnesvegi.

Vestfirðir

Snjóþekja eða hálka er á flestum leiðum á Vestfjörðum en þæfingur er á Mikladal. Búið er að opna veginn um Súðavíkurhlíð á ný en þar er hálka. Vegurinn um Dynjandisheiði er lokaður.

Norðurland

Snjóþekja eða hálka er á öllum leiðum á Norðurlandi. Flughált er í Langadal innan Blönduóss.

Norðausturland

Hálka og hálkublettir eru á flestum leiðum á Norðausturlandi. Ófært er á Dettifossvegi.

Þungatakmarkanir eru á brúnni yfir Skjálfandafljót á Norðausturvegi (85) fyrir vörubifreiðar yfir 3.500 kg að heildarþyngd og fólksflutningabifreiðar/hópbifreiðar ætlaðar til að flytja fleiri en átta farþega.

Austurland

Snjóþekja, hálka eða hálkublettir eru á flestum leiðum á Austurlandi. Ófært er á Öxi og Breiðdalsheiði.

Suðausturland

Snjóþekja og éljagangur er á öllum leiðum á Suðausturlandi.

Athugið!

Sést hefur til hreindýra við vegi á Austurlandi og Suðausturlandi í Álftafirði, Hamarsfirði og Berufirði og í nágrenni við Jökulsárlón. Vegfarendur eru beðnir um að sýna aðgát.

Uppfært klukkan 9.20.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert