Borgarstjóri með 2,5 milljónir á mánuði

Einar Þorsteinsson tók formlega við borgarstjóraembættinu af Degi B. Eggertssyni …
Einar Þorsteinsson tók formlega við borgarstjóraembættinu af Degi B. Eggertssyni í janúar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Laun borgarstjóra Reykjavíkur eru 2.477.850 kr. á mánuði miðað við janúar 2024. 

Þá fær hann greiddan fastan starfskostnað sem er 146.235 kr. á mánuði auk þess sem hann hefur embættisbifreið til umráða.

Þetta kemur fram ráðningarbréfi borgarstjórans sem fjallað var um á fundi borgarráðs Reykjavíkur í gær. 

Gera athugasemdir við að aldrei hafi verið gert nýtt ráðningarbréf fyrir Dag

Í fundargerð borgarráðs kemur einnig fram að borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi lagt fram svohljóðandi bókun á fundinum:

„Fulltrúar Sjálfstæðisflokks gera athugasemdir við að aldrei hafi verið gert nýtt ráðningarbréf fyrir fyrrum borgarstjóra, Dag B. Eggertsson, þegar hann tók aftur við starfi borgarstjóra á nýju kjörtímabili í júní 2022. Telja fulltrúarnir að borgarráð hefði þurft að ákveða starfskjör borgarstjóra sérstaklega í skriflegum ráðningarsamningi, sem jafnframt hefði þurft staðfestingu borgarstjórnar. Í 2. mgr. 54. gr. sveitastjórnarlaga nr. 138/2011 segir að sveitarstjórn skuli gera skriflegan ráðningarsamning við framkvæmdastjóra þar sem starfskjör hans eru ákveðin.

Ráðningartími skuli að jafnaði vera sá sami og kjörtímabil sveitarstjórnar. Það er því ljóst að ráðningartíma borgarstjóra fyrir kjörtímabilið 2018 til 2022 lauk þegar nýtt kjörtímabil hófst. Ekki hafi því verið unnt að líta svo á að eldri ráðningarsamningur, sem gerður var af fyrrum borgarstjórn, væri enn í gildi.

Hefði ný borgarstjórn þurft að taka afstöðu til starfskjara borgarstjóra, en það var aldrei gert þrátt fyrir athugasemdir oddvita Sjálfstæðisflokks. Telja fulltrúarnir jafnframt að fyrirliggjandi ráðningarbréf nýs borgarstjóra þurfi staðfestingu borgarstjórnar eða borgarráðs sbr. fyrrgreint ákvæði sveitastjórnarlaga.“

Borgarstjóri með vegleg laun

Þá lagði áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins fram svohljóðandi bókun:

„Fulltrúa Flokks fólksins finnst merkilegt að sjá þetta ráðningarbréf. Borgarstjóri er með vegleg laun, meira en helmingi hærri en laun borgarfulltrúa, þeirra sem eru með hæstu álagsgreiðslurnar.

Borgarstjóri hefur afnot af embættisbifreið og sennilega einnig einkabílstjóra eins og fyrrverandi borgarstjóri. Ekki kemur fram hvort borgarstjóri greiðir skatt af afnotum af embættisbifreið, s.s. vegna einkanota.

Hvað sem þessu líður er efst í huga Flokks fólksins við þessi tímamót að með þessum breytingum verði lögð áhersla á að eiga betra samstarf og samvinnu við minnihlutafulltrúa, vinna með þeim en ekki hunsa þeirra vinnu eða gera lítið úr henni. Leggja ætti áherslu á breytt og betri vinnubrögð og betri framkomu en ríktu í tíð fyrrverandi borgarstjóra. “

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert