Nemendur gengu út og kröfðust aðgerða

Margir nemendur tóku þátt í verkfallinu.
Margir nemendur tóku þátt í verkfallinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skólaverkfall nemenda Hagaskóla til stuðnings Palestínu hófst klukkan 10.30 í dag og mætti hópurinn fyrir utan Alþingi klukkan 11, í þeim tilgangi að mótmæla aðgerðaleysi stjórnvalda í málefnum Palestínu.

Nemendur úr öðrum skólum tóku einnig þátt. 

Nemendur krefjast vopnahlés.
Nemendur krefjast vopnahlés. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nemendur láta í sér heyra

Ófeigur Hjaltason Morthens, nemandi í 8. bekk í Hagaskóla, segir mikilvægt að krakkar láti í sér heyra. Þá bætir hann við verkfallið sýni að öll stig samfélagsins láti sig málið varða. 

Hann kveðst mikið hafa fylgst með málefnum Palestínu. Bæði með því að fylgjast með fréttum og því sem samnemendur hans eru að ræða.

„Það þarf að halda áfram að vekja athygli á þessu þangað til eitthvað breytist. Þetta er ekki stríð heldur þjóðarmorð. Ríkisstjórnin þarf að vita þetta,“ segir hann.

Ingólfur Birgir Haraldsson, nemandi í 8. bekk í Tjarnarskóla, segir nemendur tala mikið um þetta. Hann frétti af verkfallinu og vildi láta í sér heyra.

Að hans sögn munu krakkarnir gera slíkt hið sama þar til ríkisstjórnin svarar kröfum þeirra en nemendur úr nokkrum skólum voru á svæðinu, segir hann.

Gengið úr Hagaskóla.
Gengið úr Hagaskóla. mbl.is/Kristinn Magnússon

Krakkar úr Háteigsskóla tóku einnig þátt

Stór hluti unglingastigs Háteigsskóla tók þátt í verkfallinu að sögn Guðrúnar Helgu Sigfúsdóttur, aðstoðarskólastjóra Háteigsskóla. Mjög róleg og yfirveguð stemning hefur verið í skólanum yfir verkfallinu og enginn æsingur, bætir hún við. 

Spurð um áhuga nemenda á málefninu segjast skólastjórnendur taka eftir því að nemendur láti málefni Palestínu sig varða. Skólinn sé fjölmenningarlegur þannig að nemendur velti sér mögulega meira upp úr þessu en ella.

„Við gleymum því oft að unglingar og börn eru bara mun upplýstari en við áttum okkur oft á. Ekki er langt síðan þau voru að vekja athygli á loftlagsvánni þannig þau kunna að fara í þetta og gera það vel,“ segir Arndís Steinþórsdóttir, skólastjóri Háteigsskóla.

Enginn komi í veg fyrir að nemendur fari út en þeir fá þó fjarvist í kladdann.

Svanhildur Jóhannesdóttir, nemandi í 8.bekk í Tjarnarskóla.
Svanhildur Jóhannesdóttir, nemandi í 8.bekk í Tjarnarskóla. mbl.is/Kristinn Magnússon

Leggja fram sex kröfur

Yfirlýst markmið skólaverkfallsins er að þrýsta á íslensk stjórnvöld að verða við sex kröfum nemenda. Orðrétt:

  1. Að Ísland taki af­stöðu gegn þjóðarmorðinu sem er að ger­ast í Gasa.
  2. Að fjöl­skyld­urn­ar séu sam­einaðar strax og náð út af Gasa.
  3. Að palestínskt fólk á flótta fái alþjóðlega vernd.
  4. Að Palestínu­fólk sem hef­ur verið að mót­mæla fái fund með ut­an­rík­is­ráðherra og dóms­málaráðherra.
  5. Að brott­vís­un­um palestínsks fólks sé hætt.
  6. Að Ísland geri allt sem það geti til að þrýsta á vopna­hlé og stoppa all­ar árás­ir á Gasa.
Lögreglan var á svæðinu.
Lögreglan var á svæðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nemendur hafa haldið úti Instagram-síðunni skolaverkfall_palestinu til að vekja athygli á málstaðnum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert