Kostar 60 milljarða að kaupa Grindavík

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir ákvörðunina óháð atburðunum í gær.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir ákvörðunina óháð atburðunum í gær.

Áætlanir gera ráð fyrir því að kostnaður ríkissjóðs við uppkaup á húsum í Grindavík nemi rúmum 60 milljörðum króna. Miðað er við 95% brunabótamati ársins 2024 við kaupverðið. Svo segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. 

Hún segir að eldgosið í gær hafi ekki ráðið útslaginu með ákvörðun um að kaupa upp húsnæði í Grindavík eins og tilkynnt var um síðdegis í dag.

„Þetta var á áætlun í febrúarbyrjun,“ segir Katrín. 

Frumvarp í næstu viku 

Málið verður unnið með tilkomu Náttúruhamfarasjóðs og í samvinnu við fjármálafyrirtæki sem eiga veð í húsunum. 

„Íbúar munu geta fengið greitt 95% af brunabótamati að frádregnum veðskuldum. Við teljum okkur þarna ná ákveðnu jafnvægi við þá sem eru með altjón á húsum sínum og að þetta sé eins sambærilegt og hægt er,“ segir Katrín. 

Tillagan verður sett í samráðsgátt og á Katrín von á því að einhverjar athugasemdir verði gerðar. Búist er við því að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra muni leggja frumvarpið í næstu viku. 

Forkaupsréttur eftir tvö ár 

Er með þessu verið að viðurkenna að Grindavík sé óbyggileg?

„Við erum að segja að það sé mikil óvissa hvort Grindavík verði byggileg á næstu misserum. Vegna þeirrar óvissu er mikilvægt að íbúar Grindavíkur geti fengið aðstoð við að koma sér fyrir á nýjum stað. Enginn treystir því að segja til um það hvort þetta verði til framtíðar,“ segir Katrín. 

Hún segir að nýtt félag verði stofnað um eignirnar í Grindavík. Að tveimur árum liðnum getur fólk svo mögulega snúið aftur og fengið einhvers konar forkaupsrétt á þeim húsum sem mun standa til að selja af ríkinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert