Bæjarstjórar funda: „Grafalvarleg staða“

„Það er í rauninni bara verið að fara yfir næstu …
„Það er í rauninni bara verið að fara yfir næstu skref,“ segir væjarstjóri Voga. mbl.is/Árni Sæberg

Bæjarstjórar á Suðurnesjum funda með aðgerðastjórn almannavarna nú fyrir hádegi í Reykjanesbæ, þar sem aftur er heitavatnslaust á Suðurnesjum.

„Það er í rauninni verið að fara yfir stöðuna. Hún er talsvert breytt frá því sem hún var í gær,“ segir Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri Voga, sem var á leiðinni á fundinn þegar mbl.is náði tali af honum.

Hjáveitulögn meðfram Njarðvíkuræð gaf sig í nótt, með þeim afleiðingum að aftur er orðið heitavatnslaust á Suðurnesjum. Á sama tíma hefur verið mikið kuldaveður í landshlutanum. Gunnar lýsir stöðunni sem grafalvarlegri.

„Það er í rauninni bara verið að fara yfir næstu skref. Fá upplýsingar frá HS Orku og viðbragðsaðilum sem eru að vinna í plani b,“ bætir bæjarstjórinn við.

4.000 hitablásarar auglýstir í dag

„Það er búið að fá talsvert mikið af hitablásurum á svæðið. Það voru hátt í fjögur þúsund sem áttu að koma í hús í morgun, sem verður svo dreift til þeirra sem hafa ekki haft tækifæri til þess að afla sér slíkra tækja,“ segir hann.

„Við erum kannski fyrst og fremst að huga að fólki sem býr eitt.“

Erfitt sé að segja til um framvinduna næstu daga.

„Það eina sem er ljóst er að þetta mun taka talsvert lengri tíma en væntingar stóðu til í gær,“ bætir Gunnar Axel við.

Kuldinn mun vara í nokkra daga

„Við gerum ráð fyrir því að þetta muni vara í einhverja daga til viðbótar og að þjónusta sveitarfélagana, skólar og slík starfsemi verði að öllum líkindum skert, ef nokkur, á næstu dögum. Það kemur betur í ljós í dag,“ segir Gunnar.

Þá verður einnig til umræðu hvort opna eigi fjöldahjálparstöð.

Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri í Vogum.
Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri í Vogum. Mtynd/Sigurður Bogi

„Það er orðið býsna kalt“

Gunnar segir aðspurður að andrúmsloftið í Vogunum hafi verið yfirvegað síðustu daga, þrátt fyrir mikinn kulda þar á bæ, sem er farinn að sækja í sig veðrið.

„Þetta er náttúrulega grafalvarleg staða og það er orðið býsna kalt. Fólk er farið að finna mjög fyrir ástandinu,“ segir hann.

„Nú þurfum við auðvitað að fara að huga sérstaklega að þeim einstaklingum sem búa við þannig aðstæður að þeir þurfa á sérstakri aðstoð að halda.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert