Rúmlega þriðjungur háskólafólks í hættu á kulnun

Verið er að skoða einkenni eins og minnisleysi, einbeitingarskort, örmögnun …
Verið er að skoða einkenni eins og minnisleysi, einbeitingarskort, örmögnun og skort á stýrifærni. Þetta eru kjarnaeinkenni kulnunar ásamt því að fólk upplifir tilfinningalega skerðingu. Ljósmynd/Colourbox

Rúmlega þriðjungur háskólafólks er í hættu á kulnun samkvæmt rannsókn sem var framkvæmd haustið 2022. Þetta kom fram á málþingi um kjör og líðan starfsfólks opinberu háskólanna á Íslandi sem Félag háskólakennara (FH), Félag háskólakennara á Akureyri (FHA) og Félag prófessora við ríkisháskóla (FPR) héldu á föstudag.

Álag hefur aukist mjög undanfarin ár segir Ragna Benedikta Garðarsdóttir, sem situr í stjórn Félags prófessora við ríkisháskóla, í samtali við mbl.is.

Þetta aukna álag skýrist meðal annars af aukinni kröfu um birtingar á vísindagreinum og meiri tíma sem fer í stjórnunarstörf, en á sama tíma hefur ekki verið slegið frá kröfum um kennslu segir hún. 

Ragna flutti erindi um kulnun meðal starfsfólks háskóla á málþingi …
Ragna flutti erindi um kulnun meðal starfsfólks háskóla á málþingi um kjör og líðan starfsfólks opinberu háskólanna á Íslandi í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

36% með mikil einkenni kulnunar

Ragna flutti erindi um kulnun meðal starfsfólks háskóla á málþinginu. Erindi hennar fjallaði meðal annars um rannsókn sem hún framkvæmdi árið 2022 og byggir á niðurstöðum könnunar sem lögð var fyrir háskólastarfsfólk.

Einkenni eins og minnisleysi, einbeitingarskortur, örmögnun og skortur á stýrifærni voru skoðuð. Þetta eru kjarnaeinkenni kulnunar, ásamt því að fólk upplifir tilfinningalega skerðingu. 

„Það lýsir sér í því að fólk er komið með stuttan þráð, er ólíkt sjálfu sér og pirrað. Þetta er afleiðing þess að taugakerfið er búið að vera yfirspennt í langan tíma," segir Ragna.

Samkvæmt niðurstöðum voru 36% svarenda með mikil eða mjög mikil einkenni kulnunar. Ragna bætir þó við að það sé hægt að vera með einkenni kulnunar án þess að vera greindur með kulnun. 

Tölurnar eru sambærilegar og í starfsstéttum leikskólakennara og heilbrigðisstarfsfólks.

„Sannleikurinn er sá að við vinnum í um og yfir …
„Sannleikurinn er sá að við vinnum í um og yfir 50 tíma á viku. Sumarfrí er svo tími sem við notum í fagráðstefnur og rannsóknir. Ljósmynd/Colourbox

Aukið álag stærsta skýringin

Aukið álag á háskólakennara hefur gríðarlega mikil áhrif á störf þeirra segir Ragna. 

 „Sannleikurinn er sá að við vinnum í um og yfir 50 tíma á viku. Sumarfrí er svo tími sem við notum í fagráðstefnur og rannsóknir. Jólafrí fer í yfirferð jólaprófa, páskafrí er notað í að fara yfir og leiðbeina lokaverkefnum og kvöld og helgar fara í að undirbúa kennslu og fara yfir verkefni.“

Samkvæmt niðurstöðum nota tveir þriðju kennara kvöld, helgar og leyfi til að sinna rannsóknum og kennslu en rannsóknarframlag hefur tvöfaldast frá aldamótum.

Þá bætir Ragna við að þetta langvarandi álag komi niður á starfsfólki og muni koma niður á gæðum kennslu og nemendum ef þetta heldur svona áfram. 

Hennar upplifun af starfinu er sú að um sé að ræða blandað álag úr öllum áttum. Það sé verið að bæta á verkefni kennara bæði þegar kemur að rannsóknum, kennslu og stjórnunarstörfum. 

Innan háskólasamfélagsins er marktækur munur á vinnuálagi þeirra sem sinna …
Innan háskólasamfélagsins er marktækur munur á vinnuálagi þeirra sem sinna kennslu og þeirra sem ekki sinna kennslu sem eru skrifstofufólk og vísindamenn án kennsluskyldu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vantar pening í háskólakerfið

Á sama tíma og álagið er að aukast er mikill niðurskurður í háskólakerfinu, segir Ragna. 

„Ráðherra háskólamála hefur hingað til lofað fjármagni inn í háskólakerfið en þeir peningar eru að fara í eitthvað sem við erum ekki alveg viss um að muni bæta háskólakerfið,“ segir hún og bætir við að gríðarlegur niðurskurður sé í gangi. Verið sé að fella niður háskólaleiðir og ráðningabann sé í gildi ásamt yfirvinnubanni. 

„Við erum í þessu starfi af því við höfum brennandi áhuga á því sem við gerum. Það vegur upp á móti álaginu, annars væri ástandið miklu verra.

Það er kannski útaf þessum áhuga sem fólk hefur ekki verið mikið að kvarta en nú er fólk orðið langþreytt. Svo er það líka að koma í ljós að okkar kjör hafa dregist mjög aftur úr hinum háskólamenntuðu stéttum.“

Heildarlaun háskólaprófessors í fullu starfi með doktorsgráðu og 24 ára starfsreynslu nær ekki byrjunarlaunum nýútskrifaðs verkfræðings.

Starfsánægja ekki nógu góð

Hjördís Sigursteinsdóttir, formaður Félags háskólakennara á Akureyri, segir starfsánægju og líðan starfsfólks í opinberum háskólum ekki nógu góða. 

Hún kynnti á málþinginu niðurstöður könnunar sem var gerð meðal starfsfólks opinberu háskólanna. Samkvæmt niðurstöðunum er starfsánægjan ekki nógu góð. 

Ánægja og líðan var mæld á fimm þrepa kvarða en í almennri ánægjuspurningu vill maður fá meðaltal fyrir ofan 4 segir Hjördís og bætir við að það hafi ekki verið staðan meðal starfsfólks í opinberum háskólum. 

Einnig voru mjög fáir sammála því að vinnuálagið sé hæfilegt. Starfsfólk telur líka alls ekki nógu gott jafnvægi á milli vinnu og einkalífs.

Aðspurð um hennar upplifun á stöðunni segir hún álag hafa aukist til muna og breyttir hættir hafi haft áhrif á kennslu. 

„Til að mynda erum við að sinna nemendum bæði á staðnum og í fjarkennslu. Við þurfum ekki bara að kenna heldur einnig þurfum við að vera tæknisnillingar.“

Þá bætir hún við að mikið hafi breyst á síðustu tíu árum. Til dæmis eru nemendur sem byrja háskólanám nú yngri eftir að framhaldsskólanum var breytt. Það eru ákveðnar áskoranir sem fylgja því segir Hjördís og bætir við að þeir nemendur þurfa oft meiri athygli og það þarf að halda betur utan um þá. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert