Meta hvort endurskoða þurfi reglur vegna vildarpunkta

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis.
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um þessar mundir stendur yfir vinna við endurskoðun laga um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, en þar er meðal annars til skoðunar hvort að almenn fyrirmæli ráðherra um ferðakostnað á vegum ríkisins gefi tilefni til að endurskoða reglur um þingfararkostnað. Þetta kemur fram í svari Birgis Ármannssonar, forseta þingsins, við fyrirspurn Félags atvinnurekenda um notkun þingmanna á vildarpunktum flugfélaga.

Eins og mbl.is hefur greint frá telur Félag atvinnurekenda að það fari gegn lögum og siðareglum þingsins að þingmenn þiggi vildarpunkta fyrir að beina viðskiptum ríkisins til flugfélaga sem bjóði upp á slík kjör. Geta þeir notað slíka vildarpunkta í eigin þágu og fari það gegn reglum um greiðslu ferðakostnaðar.

Í októ­ber fjallaði mbl.is um að viðskipti Alþing­is við Icelanda­ir væru um­tals­vert meiri en við flug­fé­lagið Play árið 2022. Námu út­gjöld Alþing­is til flug­miðakaupa af Icelanda­ir 20,9 millj­ón­um króna það árið sam­an­borið við rúm­lega 500 þúsund krón­ur til miðakaupa af Play.

Birg­ir Jóns­son, for­stjóri Play, sagði þing­menn hafa per­sónu­lega hag af því að velja Icelanda­ir út af vild­arpunkt­un­um sem þeir fengju í sinn hlut.

Í svari forseta þingsins segir að ferðaáætlun þingmanna sé ákveðin hverju sinni með hliðsjón af dagskrá og hagkvæmni og borin undir viðkomandi þingmann og starfsfólk áður en farmiði er gefinn út. Segir þar að tekið sé mið af áfangastað, vikudegi flugs, flugtíma, heildarferðatíma, heildarverði, möguleikum á tengiflugi, samstarfi flugfélaga til að tryggja ábyrgð á að koma ferðalöngum á áfangastað, möguleiki á sólarhringsneyðarþjónustu, möguleiki á kaupum á flugmiðum með mismunandi áfangastað og brottfarastað og kolefnisspor.

Tekið er fram að flugtími geti skipt verulegu máli við gerð ferðaáætlunar, enda hvíli ríkar skyldur á þingmönnum að taka þátt í þingstörfum. Þá segir einnig að í undantekningartilfellum gangi þingmenn sjálfir frá bókunum, en það sé aðallega ef ferðaáætlun breytist vegna einkaerinda.

Alþingi skráir hvorki vildarpunkta við bókun, né óskar eftir því að það sé gert ef flugfélög og ferðaskrifstofur annast flugbókun.

Birgir Ármannsson segir í svarinu að það sé ekki hlutverk forseta að svara fyrir um hvort hátterni standist siðareglur alþingismanna, það sé forsætisnefndar þingsins. Þá sé það heldur ekki hlutverk sitt að svara því hvort möguleg notkun þingmanna á vildarpunktum í persónulega þágu standist almenn hegningarlög, það sé lögreglu og ákærenda.

Í tilkynningu á vef Félags atvinnurekenda segir að svör forseta séu ekki efnisleg við þeim spurningum sem beint var til hans.  Haft er eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra félagsins, að ákjósanlegt hefði verið að fá skýrari svör. Hann kallar það kerfi að þingmenn geti fengið vildarpunkta út á ferðir sínar vera spillingu.

„Burtséð frá því að vildarpunktar, sem þingmenn geta notað í eigin þágu, búa til freistnivanda að beina viðskiptum til ákveðinna fyrirtækja, er það einfaldlega spilling og stenzt engin siðferðileg viðmið að alþingismenn geti notað í eigin þágu fríðindi, sem fengust vegna ferða sem skattgreiðendur kostuðu. Slíkt er svo augljóst að forseti Alþingis ætti að sjálfsögðu að taka af skarið og lýsa því yfir að slíkt sé ótækt og verði ekki liðið,“ er haft eftir Ólafi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert