Kristrún: „Auðvelt að auka bara útgjöldin“

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra. Samsett mynd

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, gagnrýnir ríkisstjórnina fyrir það að vera ekki búin að tilgreina hvernig eigi að fjármagna aðgerðarpakka stjórnvalda vegna kjarasamninga sem nemur um 80 milljörðum króna.

Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.

„Það er auðvelt að auka bara útgjöldin eins og þessi ríkisstjórn hefur gert, en það gilda ákveðin prinsipp þegar kemur að rekstri ríkissjóðs, eða hvað?“ sagði Kristrún.

Útilokar skattahækkanir á millitekjuhópa

Kristrún benti á að fyrir jól hafi ekki fundist 20 milljarðar til niðurskurðar þegar fjármagna þurfti varnargarða og spurði því Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, fjármála- og efnahagsráðherra, hvað hefði breyst á þessum tíma, ef fara ætti í niðurskurð núna.

Þórdís útilokaði að hækka skatta á millitekjuhópa og sagði að hún myndi líta til þess að skera niður útgjöld hjá stjórnvöldum.

„Ég hef sagt skýrt að ég er ekki að tala fyrir sársaukafullum niðurskurði enda þarf hann ekki að vera sársaukafullur vegna þess að það eru bara gríðarlega mikil tækifæri til að fara betur með almannafé og það er verkefnið og ég hef verið algerlega skýr með það.“

Vill skoða skattahækkanir

Þórdís sagði að verið væri að vinna fjármálaáætlun. Sú vinna væri flókin en gengi þó ágætlega.

„Við erum með uppfærðar áætlanir sem hjálpa okkur að átta okkur á stöðunni eins og hún er núna sem hefur breyst frá því fyrir jól. Svo þarf að taka ákvarðanir sem svara því hvernig þessari forgangsröðun er mætt,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Kristrún steig þá aftur upp í pontu og spurði Þórdísi hvort að hún hefði skoðað fjámögnunartillögur Samfylkingarinnar um að hækka fjármagnstekjuskattinn, veiðigjaldið eða að afturkalla bankaskatt.

Þórdís spurði Kristrúnu til baka hvort að hún sæi enga leið til að spara hjá hinu opinbera.

„Mér þykir eðlileg krafa af hálfu fjárveitingavaldsins og stjórnvalda að skoða það á hverjum degi hvort farið er eins vel með annarra manna peninga og kostur er,“ sagði Þórdís.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert