„Við þurfum að vakna“

Íris Róbertsdóttir var ómyrk í máli.
Íris Róbertsdóttir var ómyrk í máli. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

„Það er bara ekkert sérstök staða uppi, við þurfum að vakna,“ sagði Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja, þegar hún setti málþingið Er ís­lensk orka til heima­brúks – staðan í orku­mál­um með áherslu á íbúa og sveit­ar­fé­lög. 

Hún sagði það ekki koma til af góðu að Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum stæðu fyrir málþinginu til að ræða stöðuna í orkumálum.

„Orkuöryggi íbúa, sveitarfélaga og minni fyrirtækja er ekki tryggt. Það er skekkja í kerfinu varðandi íbúa á köldum svæðum, við sitjum ekki við sama borð – ég er af köldu svæði þó það sjáist nú ekki ég er mjög heit – við sitjum ekki við sama borð og aðrir íbúar,“ sagði Íris og lagði áherslu á mikilvægi þess að koma orkumálum vel á dagskrá, enda nauðsynlegt að grípa til aðgerða. 

Mikilvægi orkunnar til að ná loftslagsmarkmiðum

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði áherslu á þau markmið sem sett hafa verið í tengslum við loftslagsmál og árétti mikilvægi orkunnar í ræðu sinni. 

„Sannast sagna verður að segjast að orkumálin hafa verið jaðarmál síðan Rússar réðust inn í Úkraínu,“ sagði Katrín og bætti við að síðan þá hefði stríðum farið fjölgandi og samhliða næðu orkumálin ekki brennidepli í hinni alþjóðlegu umræðu. 

„Þannig að það er ekki eingöngu hér á Íslandi sem miðar of hægt.“

Samhliða því að stríðum fjölgar hafa orkumál ekki náð brennidepli …
Samhliða því að stríðum fjölgar hafa orkumál ekki náð brennidepli í alþjóðlegri umræðu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrjú atriði sem Katrín telur mikilvægt að hafa í huga 

Því næst fjallaði Katrín um þau þrjú atriði sem hún telur mikilvægt að hafa í huga varðandi orkumálin í framtíðinni.

Fyrsta atriðið snýr að því að forgangsraða innlendri orku til orkuskipta hér á Íslandi að mati Katrínar, en hún kvaðst fullmeðvituð um að ekki væru allir á eitt sammála um það. 

„Mér finnst það bara vera slíkt hagsmunamál fyrir íslenska þjóð við þurfum að forgangsraða og gera það með mjög skýrum hætti.“

Í öðru lagi segir Katrín mikilvægt að fórna ekki því að taka faglegar ákvarðanir þegar kemur að orkumálum vegna þess hve brýnt málefnið er. Í því samhengi sagði hún margt hafa gerst á undanförnum árum og nefndi afgreiðslu í þinginu á rammaáætlun þrjú og lagabreytingar í tengslum við virkjanir. 

„Það hefur verið unnið að því að einfalda þessi mál með það sem ég vil segja að sé skynsamleg og fagleg nálgun. Þeirri nálgun megum við ekki fórna þó liggi á.“

Loks sagði Katrín að huga þyrfti að ágóðanum, eða arðinum. „Við erum svo heppinn við Íslendingar að okkar stærsta orkufyrirtæki er í eigu almennings, það skilar okkur ekki bara orku heldur líka ómældum arði,“ sagði Katrín og lagði áherslu á að kerfið yrði skoðað með heildstæðum hætti. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert