„Magnaðasta heimkoma sem ég hef upplifað“

Elgosið sást vel úr flugvélinni er hún nálgaðist Keflavíkurflugvöll.
Elgosið sást vel úr flugvélinni er hún nálgaðist Keflavíkurflugvöll. Sigurður Jökull Ólafsson

Sigurður Jökull Ólafsson var í flugi Icelandair frá Kaupmannahöfn þegar eldgos hófst a Reykjanesskaga. Flugstjórinn tilkynnti farþegum vélarinnar að byrjað væri að gjósa og fengu þeir gott útsýni yfir gosið áður en flugvélin lenti. Hann segir magnað að hafa séð gosið úr háloftunum.

Öll flugvélin teygði sig yfir til að sjá gosið

Sigurður var á leiðinni heim eftir langt ferðalag frá Genóa með millistoppi í Mílanó og Kaupmannahöfn. 

„Maður vissi ekkert af þessu. Svo þegar við erum að fara að lenda segir flugstjórinn að það sé byrjað að gjósa og að við munum fljúga yfir,“ segir Sigurður og bætir við að þrátt fyrir að það hafi verið aðeins skýjað hafi gosið sést ansi vel. 

Drónaskot frá Njarðvik. Eldgos á Reykjanesskaga 16. mars 2024.
Drónaskot frá Njarðvik. Eldgos á Reykjanesskaga 16. mars 2024. Ljósmynd/Halldór Kr. Jónsson

Þegar flugvélin nálgaðist Keflavíkurflugvöll segir Sigurður svo mikinn bjarma hafa verið yfir að það var eins og að fljúga inn í stórborg.

„Útsýnið yfir gosið var mín megin og öll flugvélin teygði sig eins og hún gat yfir til að sjá þetta.“

Þá segir Sigurður útsýnið hafa verið magnað. 

Sigurður Jökull Ólafsson var á leiðinni heim frá Genóa þegar …
Sigurður Jökull Ólafsson var á leiðinni heim frá Genóa þegar gosið hófst. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ógnvekjandi en stórfenglegt

„Ég get ekki sagt annað en eftir vel yfir heilan dag í löngu ferðalagi er þetta magnaðasta heimkoma sem ég hef, og mun líklegast upplifa.“

Flestir farþegarnir í vélinni voru útlendingar segir Sigurður og er ansi viss um að þetta hafi ekki verið upplifun sem þau bjuggust við.

„Allir átta sig á því að þetta er ógnvekjandi vegna þess hve nálægt byggð þetta er en stórfenglegt er þetta engu að síður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert