„Ekki unnt að réttlæta slík fjárútlát“

Þingmennirnir benda á að hinu opinbera sé skylt að verja …
Þingmennirnir benda á að hinu opinbera sé skylt að verja að minnsta kosti 1% af heildarbyggingarkostnaði opinberrar nýbyggingar til listaverka í henni og umhverfi hennar. Í tilfelli nýs Landspítalans, sem kosti 210 milljarða króna, þá nemi upphæðin til kaupa á listaverkum 2,1 milljarði kr., sem sé ekki réttlætanlegt. mbl.is/Árni Sæberg

Fimm þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp til laga um breytingu á myndlistarlögum, þeir vilja fella á brott 14. gr. laganna sem fjallar um framlag listaverka í nýbyggingum. Þeir segja ekki tilefni til að binda hendur hins opinbera hvað listaverkakaup varðar. 

Í 14. gr. laganna segir: „Verja skal að minnsta kosti 1% af heildarbyggingarkostnaði opinberrar nýbyggingar til listaverka í henni og umhverfi hennar. Með listaverkum er átt við hvers konar fasta og lausa listmuni, svo sem veggskreytingar innan húss og utan, höggmyndir, málverk, myndvefnað og aðra listræna fegrun. Þá getur listaverk verið eiginlegur byggingarhluti, að hluta eða í heild, og órjúfanlegur hluti af byggingu eða umhverfi hennar.“ 

Flutningsmenn frumvarpsins eru þau Jón Gunnarsson, Óli Björn Kárason, Diljá Mist Einarsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Njáll Trausti Friðbertsson.

Hvergi að finna undantekningu frá kröfum 14. gr.

Þingmennirnir benda á, að í núverandi lögum sé hvergi að finna undantekningu frá kröfum 14. gr. sem gildi því ávallt, óháð eðli og hlutverki nýbyggingarinnar. 

„Heildarbyggingarkostnaður nýbygginga getur verið mjög hár, en sem dæmi má nefna að áætlaður heildarbyggingarkostnaður nýs Landspítala er 210 ma.kr. Í því tilviki er hinu opinbera skylt að fjárfesta í listaverkum fyrir spítalann fyrir að lágmarki 2,1 ma.kr. Að mati flutningsmanna er ekki unnt að réttlæta slík fjárútlát til listaverkakaupa fyrir eina byggingu,“ segir m.a. í greinargerð með frumvarpinu.

Samræmist illa kröfum laga um opinber fjármál

Þá er tekið fram að fjárfesting af þessum toga samræmist illa kröfum laga um opinber fjármál, um hagkvæma opinbera fjárstjórn, þar sem hinu opinbera geti í reynd verið skylt að velja óhagkvæmasta kostinn til þess að uppfylla skilyrði 14. gr. myndlistarlaga um lágmarksfjárútlát.

„Í ljósi fjölbreytileika opinberra stofnana og mismikils byggingarkostnaðar nýbygginga er að mati flutningsmanna ekki hægt að láta eina reglu gilda um kaup á listaverkum, til að mynda hýsa sumar opinberar byggingar starfsemi sem er með öllu opin almenningi sem eðlilegt er að skreyta með nokkrum fjölda listaverka.“

Ekki tilefni til að binda hendur hins opinbera

„Ekki er tilefni til þess að binda hendur hins opinbera hvað listaverkakaup varðar líkt og er gert í 14. gr. myndlistarlaga. Við slíkar ákvarðanir er eðlilegt að litið sé til starfsemi og eðlis byggingarinnar, sem og stöðu ríkisfjármála hverju sinni,“ segir jafnframt í greinargerðinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert