Mikilvægt að setja upp heimilisofbeldisgleraugun og spyrja

Drífa Jónasdóttir, sérfræðingur hjá heilbrigðisráðuneytinu.
Drífa Jónasdóttir, sérfræðingur hjá heilbrigðisráðuneytinu. mbl.is/Hari

„Kyrking, ólétt kona og ítrekuð koma út af heimilisofbeldi á síðustu 12 mánuðum. Það eru rauð flögg bæði hjá okkur og hjá lögreglunni,“ segir Drífa Jónasdóttir, sérfræðingur hjá heilbrigðisráðuneytinu.

Drífa hefur leitt verkefni innan ráðuneytisins á síðustu árum sem snýr að samræmingu verklags fyrir heilbrigðisstofnanir vegna þjónustu við þolendur heimilisofbeldis og segir meðal annars mikilvægt að samræma áhættumat fagfólks í slíkri þjónustu.

„Á ég að gera það?“

Ráðstefna fyrir fagfólk í framlínu heilbrigðiskerfis og lögreglu um samvinnu í þjónustu við þolendur heimilisofbeldis fór fram í gær og bar ráðstefnan titilinn „Á ég að gera það?“

Vísar nafnið til vandans sem verklaginu er ætlað að taka á en í samtali við mbl.is segir Drífa vöntun hafa verið á skýru samræmdu verkferli fyrir heilbrigðisstarfsfólk á landsvísu í tilfellum heimilisofbeldis.

„Markmiðið er náttúrulega að fá þessa snemmtæku íhlutun, grípa snemma inn í, hjálpa fólki að komast út úr ofbeldissamböndum með því að upplýsa það og sá fræjum um það sem er í boði,“ segir Drífa.

Verkferlið veiti heilbrigðisstarfsfólki skýrar upplýsingar um hvernig skuli meðhöndla heimilisofbeldismál og þau úrræði sem lögreglan sé með fyrir þolendur ofbeldis t. d. brottvísun af heimili, nálgunarbann eða krækju í síma, sem gerir lögreglu kleift að bregðast skjótt við sé hringt í 112 úr símanum.

Líkamlegir áverkar ekki eina merkið

Eygló Harðardóttir, verkefnastjóri aðgerða gegn ofbeldi hjá ríkislögreglustjóra, ræddi einnig við mbl.is og kvaðst bjartsýn í kjölfar ráðstefnunnar enda þverfagleg samvinna á milli stofnana og fagfólks í framlínu lykillinn að því að mæta þolendum ofbeldis með betri þjónustu.

Hún segir algengast að fólk leiti til heilbrigðisþjónustunnar og því sé mikilvægt að gott samstarf og þekkingarmiðlun sé á milli lögreglunnar, heilbrigðisstofnanna og barnaverndar.

Segir Eygló mikilvægt að fagaðilar séu vel upplýstir og bætir við að líkamlegir áverkar séu ekki eina merkið um heimilisofbeldi, heldur geti það einnig lýst sér í tíðum komum á heilbrigðisstofnanir, höfuðverkjum eða óútskýranlegri vanlíðan. Mikilvægt sé að spyrja og bjóða fram aðstoð.

„Þá er svo mikilvægt að spyrja eða eins og mínir sérfræðingar segja: setja upp heimilisofbeldisgleraugun.“

Eygló Harðardóttir, verkefnastjóri aðgerða gegn ofbeldi hjá ríkislögreglustjóra.
Eygló Harðardóttir, verkefnastjóri aðgerða gegn ofbeldi hjá ríkislögreglustjóra.

Fólk telji að næsti maður sendi lögreglutilkynningu

Drífa segir að oft telji fólk einfaldlega að næsti maður taki við keflinu í ofbeldismálum en það sé því miður ekki alltaf raunin og endi því stundum með því að engin tilkynni málið eða geri viðeigandi aðilum viðvart.

Hún þekki dæmi um að þolendur heimilisofbeldis hafi hitt fimm mismunandi fagaðila sem hafi vitað um ofbeldið en að engin hafi sent tilkynningu til barnaverndar, þar sem allir hafi staðið í trú um annar aðili myndi sjá um það. 

Segir Drífa þá mikilvægt að taka fram að það sé ekki áfellisdómur á vinnubrögð heilbrigðisstarfsfólks heldur um skort á stöðluðum verkferlum.

„Það er alls ekki að þau nenni ekki eða hafi ekki áhuga. Það var bara ekki skýrt ferli um hvað eigi að gera.“

Veita þjónustu óháð búsetu

Stefnt sé að því að innleiða nýja verklagið og skráningarform á heilbrigðisstofnunum um land allt á vormánuðum og að þannig verði auðveldara að tengja þolendur við heimilisofbeldisteymi Landsspítalans.

Þá sé lögð sérstök áhersla á að slík úrræði verði aðgengileg þolendum ofbeldis á landsbyggðinni sem geti verið einangruð eða átt erfitt með að láta vita af ofbeldi í litlu samfélagi þar sem allir þekki alla.

Að sögn Drífu á nú einungis eftir að klára að setja upp og prufukeyra skrásetningarformið fyrir heilbrigðisstarfsfólkið til að styðjast við þegar þolendur ofbeldis koma til þeirra, enda gott að hafa tékklista í flóknum málum þar sem fólk vilji vanda sig.

„Rannsóknir sýna að heilbrigðisstarfsfólk eru oft þau fyrstu og þau einu sem vita um ofbeldið, þess vegna er svona mikilvægt að vera með þetta verklag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert