„Þetta er vandamál okkar allra“

Guðlaugur Þór Þórðarson setti málstofuna með ávarpi og kvað Íslendinga …
Guðlaugur Þór Þórðarson setti málstofuna með ávarpi og kvað Íslendinga hafa sýnt kraft og frumkvæði. mbl.is/Árni Sæberg

„Það sem við gerðum hér er hægt að gera í mjög stórum hluta heimsins,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í málstofu um framtíð verndar- og orkunýtingaráætlunar, eða rammaáætlunar, í orkumálum sem haldin var í Þjóðmenningarhúsinu í morgun en í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er kveðið á um endurskoðun laga um áætlunina svo tryggja megi ábyrga og skynsama nýtingu og vernd landsvæða á Íslandi

Markaði málstofan upphaf vinnu starfshóps sem ráðherra skipaði til áðunefndrar endurskoðunar laganna.

Sagðist ráðherra telja að Íslendingar nú væru í grunninn eins og fyrri kynslóðir og hefðu sýnt kraft og frumkvæði sem væri ástæðan fyrir því að bandaríski orkumálaráðherrann hafi óskað eftir samvinnu og að Ísland miðli af þekkingu sinni og reynslu.

Rammaáætlun ekki virkað sem skyldi

„Við erum sammála um að skynsamlegra sé að nýta græna orku en jarðefnaeldsneyti,“ sagði Guðlaugur Þór og benti enn fremur á að Íslendingar væru einnig á þeim stað að vera náttúruverndarsinnar í eðli sínu, engin tilviljun væri að erlendir gestir sæktu til landsins til að upplifa ósnortin víðerni. „Það var ástæðan fyrir því að menn fóru í rammaáætlunina,“ sagði hann.

Jón G. Pétursson benti á að rammaáætlunin væri lögbundið stjórntæki …
Jón G. Pétursson benti á að rammaáætlunin væri lögbundið stjórntæki sem falið væri að vega saman ólík sjónarmið. Mikil ásókn væri í þau gæði sem íslenskar náttúruauðlindir væru og hefðu lögin síst minna gildi nú en árið 2011 þegar þau voru samþykkt. Ljósmynd/Brynjar Gauti

Hins vegar yrði að horfast í augu við það að rammaáætlun hefði ekki virkað sem skyldi. „Við erum komin á alvarlegan stað í grænum orkumálum [...] það liggur á ef við ætlum að ná árangri í grænum orkumálum. Við viljum hafa jafnvægi á milli náttúruverndar og þess að nýta græna orku,“ sagði Guðlaugur Þór enn fremur.

Benti hann á að Íslendingar notuðu enn díselknúin raforkuver, „þetta er vandamál okkar allra þótt þetta eigi bara við um einstaka landshluta [...] það er mikið undir og fáir málaflokkar jafn mikilvægir og þessi“.

Lögbundið stjórntæki

Vissulega væru ólíkir einstaklingar í starfshópnum en hann yrði engu að síður að komast að niðurstöðu, ellegar yrði hætt við að fara þyrfti aðrar leiðir. „Við þurfum að vera með gott fyrirkomulag, ég mun hlakka til að fylgjast með vinnu hópsins. Við Íslendingar erum öfundsverðir að vera í þeirri stöðu sem við erum í hvað varðar græna orku,“ sagði ráðherra að lokum.

Þá tók Jón G. Pétursson til máls, formaður verkefnisstjórnar fimmta áfanga rammaáætlunar. Ræddi Jón um forsögu rammaáætlunar, uppbyggingu hennar og hvernig hún virkaði en um þessar mundir er rúmur áratugur liðinn síðan lög um áætlunina tóku gildi vorið 2013 en mikil seinkun varð á afgreiðslu Alþingis á þriðja áfanga hennar.

Jón nefndi Kárahnjúkavirkjun sem dæmi um eitt margra þrætuepla á …
Jón nefndi Kárahnjúkavirkjun sem dæmi um eitt margra þrætuepla á sviði náttúruverndar og orkumála. mbl.is/RAX

Benti Jón á að rammaáætlunin væri lögbundið stjórntæki sem falið væri að vega saman ólík sjónarmið. Mikil ásókn væri í þau gæði sem íslenskar náttúruauðlindir væru og hefðu lögin síst minna gildi nú en árið 2011 þegar þau voru samþykkt, tveimur árum fyrir gildistökuna. Þetta væri mikilvægt að hafa í huga enda hefðu mikil átök risið í samfélaginu um nýtingu þessara gæða, sagði Jón og nefndi Kárahnjúkavirkjun sem dæmi um slíkt þrætuepli.

Sagði formaðurinn augljóst að seint yrði sátt um allar ákvarðanir sem teknar væru, íslensk löggjöf væri byggð á svipaðri löggjöf og sú norska um sambærileg mál þar en Norðmenn hafi hins vegar verið mun fyrr á ferð í sinni vinnu.

Norðmenn luku sinni rammaáætlun 2016

Vinna hópsins hafi fram til þessa verið í áföngum en vilji hans standi til þess að færa hana yfir í samfellda framvindu. Lagði Jón áherslu á að mikilvægt væri að hafa í huga að rammaáætlun væri hluti af mun stærra ákvörðunarferli. „Verkefnisstjórn er ekki leyfisveita, hún leggur fram tillögur sem ráðherra samþykkir og svo Alþingi,“ sagði Jón og benti á að hvorir tveggju aðilarnir gætu þó gert breytingar á tillögunum.

Sjónarmiðin sem sett hefðu verið fram þegar lögin voru sett hefðu breyst mikið. Norska áætlunin fjallaði eingöngu um vatnsafl, hérlendis væri hins vegar verið að tala um þrjár tegundir orku, vatn, jarðvarma og vind.

„Hafandi unnið núna í þrjú ár sem formaður hafa ekki komið upp neinir hnökrar í löggjöfinni,“ sagði Jón og bætti því við að ramminn væri hið miðlæga ákvörðunartæki og mikilvægt væri að draga fram ólík sjónarmið, lagaramminn byði upp á þróun og innan hans væri rými fyrir umbætur.

Lokapunktinn sagði Jón vera að eðli málsins samkvæmt lyki vinnu rammaáætlunar, „það er búið að fjalla um flest í orkumálum á Íslandi. Það er mjög mikilvægt að líta til þess að Norðmenn luku sinni rammaáætlun árið 2016 [...] við erum mjög upptekin af því að bæta ákvarðanatöku og vinna að því að þær ákvarðnir sem við erum að vinna að séu teknar,“ sagði Jón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert