Segja Bankasýsluna hafa vitað um kaup á TM

Bankaráð Landsbanka segir Bankasýsluna hafa verið upplýsta um fyrirhuguð kaup …
Bankaráð Landsbanka segir Bankasýsluna hafa verið upplýsta um fyrirhuguð kaup á TM. Samsett mynd

Landsbankinn hefur birt tilkynningu á heimasíðu sinni þar sem fram kemur að bankinn hafi upplýst Bankasýsluna um fyrirhuguð kaup á TM frá miðju ári í fyrra. Ennfremur að engar athugasemdir hafi verið gerðar við áætlanir bankans. 

Í tilkynningu segir að frá miðju ári 2023 hafi bankaráð bankans átt frumvæði að samskiptum við Bankasýsluna um áhuga á kaupum á TM. Samskiptin hafi fari farið fram í tölvupóstum, á fundum og  í símtölum.

Bankasýslan hafi svarað samdægurs án athugasemda

„Í tölvupósti frá formanni bankaráðs 11. júlí 2023 til Bankasýslunnar var greint frá því að bankinn hefði haft samband við Kviku og lýst yfir áhuga bankans á að kaupa TM. Bankasýslan svaraði tölvupóstinum samdægurs án athugasemda varðandi kaupin," segir meðal annars.

Þá kemur ennfremur fram að Bankasýslan hafi verið upplýst símleiðis þann 20. desember að bankinn hefði skilað inn óskuldbindandi tilboði í TM eftir söluferli TM hófst.

Eins að Bankasýslan hafi aldrei sett fram athugasemdir eða óskað eftir frekari upplýsingum eða gögnum frá bankaráði fyrr en eftir að tilkynnt var um samþykki Kviku á skuldbindandi tilboði bankans.

Tilkynningin í heild sinni

Vísað er til bréfs Bankasýslu ríkisins til Landsbankans, dags. 18. mars sl., þar sem óskað var eftir nánar tilgreindum upplýsingum um skuldbindandi tilboð bankans um kaup af Kviku banka hf. á 100% hlutafjár í TM tryggingum hf., sem lagt var fram 15. mars sl.

Vegna bréfsins vill bankaráð leggja áherslu á eftirfarandi:

  • Bankaráð hefur um nokkurt skeið haft áhuga á að bæta tryggingum við þjónustuframboð bankans.
  • Frá miðju ári 2023 hefur bankaráð átt frumkvæði að samskiptum við Bankasýsluna þar sem fram hefur komið áhugi bankaráðs á tryggingamarkaðnum og eftir atvikum kaupum á TM. Samskiptin hafa farið fram í tölvupóstum, á fundum og með símtölum.
  • Í tölvupósti frá formanni bankaráðs 11. júlí 2023 til Bankasýslunnar var greint frá því að bankinn hefði haft samband við Kviku og lýst yfir áhuga bankans á að kaupa TM.  Bankasýslan svaraði tölvupóstinum samdægurs án athugasemda varðandi kaupin.
  • Formlegt söluferli á TM hófst 17. nóvember 2023. Þann 20. desember 2023 var Bankasýslan upplýst í símtali um að bankinn hefði skilað inn óskuldbindandi tilboði í TM. Í kjölfarið tók bankinn þátt í ferli sem lauk með því að bankinn lagði fram skuldbindandi tilboð í félagið þann 15. mars 2024. Þann 17. mars var Bankasýslan upplýst um að Kvika hefði samþykkt skuldbindandi tilboð bankans.
  • Bankasýslan setti aldrei fram athugasemdir eða óskaði eftir frekari upplýsingum eða gögnum frá bankaráði fyrr en eftir að tilkynnt var um samþykki Kviku á skuldbindandi tilboði bankans.
  • Bankaráð uppfyllti skyldur sínar til upplýsingagjafar í samræmi við núgildandi eigandastefnu ríkisins sem og samkvæmt samningi bankans við Bankasýsluna frá 2010.

Það er mat bankaráðs að ákvörðun um kaup á TM sé á forræði bankaráðs, kaupin á TM samrýmist eigendastefnu ríkisins og þjóni langtímahagsmunum bankans og hluthafa. Með því að bæta tryggingum við þjónustu Landsbankans geti bankinn boðið viðskiptavinum sínum enn betri og fjölbreyttari þjónustu, auk þess sem það muni styrkja reksturinn og auka verðmæti bankans.

Kaup bankans á TM eru ekki talin auka áhættu í rekstri bankans umfram þann ávinning sem hlýst af kaupunum. Kaupin hafi ekki áhrif á getu bankans til að uppfylla arðgreiðslustefnu bankans um að greiða að jafnaði um 50% af hagnaði fyrra árs í arð til hluthafa en muni styrkja arðgreiðslugetu bankans til lengri tíma.

Að síðustu skal áréttað að Bankasýslan var upplýst af hálfu bankaráðs og var kunnugt um áform bankans um að kaupa TM eins og að ofan hefur verið rakið.

Nánar er fjallað um aðdraganda, undirbúning og fleiri þætti í greinargerð sem fylgir þessu bréfi.

„Bankaráð uppfyllti skyldur sínar til upplýsingagjafar í samræmi við núgildandi eigandastefnu ríkisins sem og samkvæmt samningi bankans við Bankasýsluna frá 2010,“ segir í tilkynningu..

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert