Þjófnaðurinn hleypur á tugum milljóna

Þjófnaður hefur aukist í Krónunni.
Þjófnaður hefur aukist í Krónunni. Ljósmynd/Krónan

Þjófnaður úr verslunum Krónunnar hefur verið meiri fyrstu mánuði 2024 en á sama tímabili á síðustu árum og hleypur á tugum milljóna króna árlega. Ólafur Rúnar Þórhallsson, forstöðumaður reksturs og þjónustu hjá Krónunni, greinir frá þessu í samtali við Morgunblaðið.

Reglulega koma upp þjófnaðarmál sem eftirlitsdeild Krónunnar þarf að kljást við. Sum málin varða ungt fólk sem skorar hvað á annað að stela vörum í ódýrari kantinum en stærstu málin varða beinlínis skipulagða brotastarfsemi þar sem stuldur getur numið hundruðum þúsunda króna í senn, að sögn Ólafs.

„Þar sjáum við mikla aukningu. Við sjáum þjófnað sem fer upp í 200-300 þúsund,“ segir Ólafur. Spurður hversu miklum verðmætum sé stolið árlega í krónum talið í skipulagðri brotastarfsemi segir Ólafur að það hlaupi á tugum milljóna.

Viðskiptavinir hafi bent Krónunni á þegar þeir hafi orðið vitni að því að fólk þjóti úr verslunum með heilu körfurnar af mat. Þá fylli sumir bakpoka eða handkörfur af vörum. Ekki næst að grípa alla við verknaðinn en dæmi um svona þjófnað hafa seinna meir verið staðfest með því að skoða öryggismyndavélar.

Vítamín, læri og nautalundir

Aftur á móti sé tiltölulega einfalt að átta sig á því þegar um skipulagða brotastarfsemi er að ræða. Þá sé yfirleitt allra dýrustu vörunum stolið.

„Það eru vítamín, nautalundir, humar, lambalæri og lambafilet. Dýrar vörur og það fer ekki á milli mála hvað er í gangi þar,“ segir hann og bætir rakvélarblöðum á listann. Spurður hvort þetta tengist að einhverju leyti innleiðingu sjálfsafgreiðslukassa segir Ólafur svo ekki vera; ef fólk ætli að stela þá finni það leið til þess.

„Þeir sem stunda stórþjófnað – sem er stærsta vandamálið þegar upp er staðið – vinna í teymum og taka heilar körfur. Það er ótrúlegt að horfa á hvað þau eru lunkin í þessu,“ segir Ólafur. Hann tekur aftur á móti fram að þótt þjófnaður hafi aukist hafi einhver skipulagður þjófnaður í matvöruverslunum alltaf tíðkast. Vandamálið eigi eflaust ekki aðeins við um verslanir Krónunnar.

Verslunarstjóri Krónunnar í Vallakór vakti athygli á því á samfélagsmiðlum nýverið að meira bæri á þjófnaði á meðal ungs fólks.

Ólafur segir að vissulega hafi komið upp nokkur dæmi þar sem ungt fólk stelur. Stór skóli sé í grenndinni og þá komi upp dæmi um þjófnað, sérstaklega í kaffitímum eða hléum. Þó einskorðast svona stuldur af hálfu ungmenna ekki við Vallakór.

„Við upplifum sams konar mynstur þar sem skólar eru í grennd við verslanir. Hvað varðar þennan aldurshóp þá virðist þetta vera eins og sport. Það er verið að mana hinn og þennan,“ segir hann.

Reglurnar eru alltaf þær sömu ef málið varðar einstaklinga yngri en 18 ára. Krónan þarf að hafa samband við lögreglu, sem hefur svo samband við foreldra. „Þetta eru lágar upphæðir; þú ert að stela einhverju fyrir 200 krónur eða 700 krónur, þetta er svona hálfgrátlegt og afleiðingarnar sem koma í kjölfarið leiðinlegar,“ segir Ólafur.

Hann tekur að lokum fram að Krónan sé með afar virkt eftirlit og öfluga öryggisdeild, ásamt því að hafa eflt varnir sínar með margvíslegum hætti til að sporna við þjófnaði. Einnig hafi náðst góður árangur í samstarfi við lögreglu. Samt sem áður sé vandamálið stórt og virðist fara vaxandi hér á landi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert