„Maður vill ekki að neinn lendi í þessu“

„Já, ég hef fengið hringingar heim og skilaboð. Og auðvitað tala ég bara við fólk og reyni að ráðleggja því og leiðbeina eins og ég get og það er gott að geta gert það.“

Þetta segir Hildur Hólmfríður Pálsdóttir, sem tók fljótt ákvörðun um að nýta þá sáru reynslu sem hún varð fyrir fyrir tíu árum þegar dóttir hennar lést af völdum fíkniefnaneyslu. 

Hildur hefur haldið fjölmarga fyrirlestra um forvarnir gegn fíkniefnum og hefur í nokkur ár farið á milli grunn- og menntaskóla um allt land. Með því hefur hún aðeins eitt að markmiði og það er að sýna hverjar raunverulegar afleiðingar fíkniefnaneyslu geta verið. 

Hildur segir sögur annarra hafa haft mikil áhrif á sig …
Hildur segir sögur annarra hafa haft mikil áhrif á sig í gegnum tíðina. Mynd úr safni. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Sögur annarra rífa upp sárið

„Fyrst eftir að Alma deyr og ég var að sjá kannski í blöðum stelpa eða strákur í stroki – þá fékk ég svo mikinn sting í hjartað,“ segir Hildur sem hefur vel fundið fyrir neyð samfélagsins í fíkniefnamálum.

Hildur segir sögur annarra hafa haft mikil áhrif á sig í gegnum tíðina. Stundum upplifi hún sig bæði mátt- og bjargarlausa en þó hafi hún alltaf reynt að leggja það í vana sinn að rétta foreldrum barna með fíknivanda hjálparhönd þegar hún sjálf hefur haft tök á.

Samfélagið má ekki missa fleiri

„Ég fer að gráta núna bara fyrir hönd annarra. Maður hefur svo oft setið heima með tárin í augunum yfir öllum fjölskyldunum og börnunum sem eru að lenda í þessu. Og öllum þessum fjölskyldum sem eru að missa börnin sín. Ég er búin að gráta yfir fullt af börnum sem ég þekki ekki neitt,“ segir Hildur og brestur í grát.

Sorg hennar hverfur aldrei. Hún segir sársaukann við að missa barn af völdum of stórs skammts af lyfseðilsskyldum lyfjum vera óbærilegan. Þess vegna berjist hún fyrir bættum aðgerðum málaflokksins. Hún segir samfélagið ekki mega við því að missa fleiri ungmenni úr þessu banameni.

„Það er svo skelfilegt að lenda í þessu og maður vill ekki að neinn lendi í þessu.“ 

Hildur heldur úti Facebook-síðunni Forvörn gegn fíkniefnum. Þar deilir hún ýmsum fróðleik fyrir ungmenni og foreldra ásamt því að taka við bókunum á fyrirlestrum.

Smelltu hér til að horfa á allt viðtalið við Hildi Hólmfríði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert