Blossastjarna verður sýnileg í Norðurkórónunni

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP/ESA/NASA

Blossastjarna verður sýnileg í stjörnumerki Norðurkórónunnar á næstu dögum. Athugulir stjörnuáhugamenn gætu séð glitta í hana hafi þeir heppnina með sér.

Þrátt fyrir að um merkilegt sjónarspil sé að ræða og áhugavert í stjarnfræðilegu tilliti segir Sævar Helgi Bragason, eða Stjörnu-Sævar eins og hann er gjarnan kallaður, að birtustig blossastjörnunnar verði tiltölulega dauft og því muni blossastjarnan líta út eins og hver önnur stjarna. 

Birtan eykst hratt

Aðspurður segir Sævar að blossastjarna sé stjarna sem geti breytt birtu sinni. Þannig geti birta stjörnunnar aukist rosalega hratt og mikið áður en það dragi aftur úr henni. 

Spurður hversu lengi birtustig blossastjörnu sé í hámarki segir Sævar það mismunandi, en nefnir sem dæmi að það geti varað í áratugi.

Von á deildarmyrkva í apríl 

Þar sem sjónarspil umræddrar blossastjörnu verður á pari við hverja aðra stjörnu, og ólíklegt að þeir sem ekki leggja stund á stjörnuskoðun verði hennar varir, vekur Sævar athygli á að von sé á að það sjáist til deildarmyrkva á sólu frá Íslandi 8. apríl. 

Deildarmyrkvi verður þegar sólin og tunglið eru ekki alveg í beinni línu og tunglið hylur sólina að hluta. 

Deildarmyrkvinn mun sjást alls staðar á landinu þó mismikið. Sem dæmi þá sést allur myrkvinn frá Reykjavík ef veður leyfir en á Austurlandi sest sólin á meðan hann stendur yfir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert