Guðni hvattur áfram í undirskriftasöfnun

Landsmenn eru hrifnir af Guðna forseta sem kveður í sumar.
Landsmenn eru hrifnir af Guðna forseta sem kveður í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Undirskriftasöfnunin „Hvatning til forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar“ er nú opin á island.is. Markmið söfnunarinnar er að fá forseta Íslands til að endurskoða hug sinn frá áramótum og bjóða sig fram á ný til þess að sitja eitt kjörtímabil til viðbótar.

„Þá gæfist landsmönnum góður tími til þess að finna jafn sterkan og hæfan forseta eins og þann sem við höfum haft undanfarin átta ár,“ segir á síðu undirskriftalistans. 

Vill sjá Guðna sitja áfram

Jón Þorsteinn Sigurðsson er ábyrgðarmaður undirskriftalistans.
Jón Þorsteinn Sigurðsson er ábyrgðarmaður undirskriftalistans. Ljósmynd/Aðsend

Jón Þorsteinn Sigurðsson, ábyrgðarmaður söfnunarinnar, segir í samtali við mbl.is að hann hafi ákveðið að stofna hana í ljósi skrítinnar stöðu í framboðsmálum, að hans mati. 

„Margir eru að bjóða sig fram og margir álitlegir en að sama skapi finnst mér að það þurfi að breyta stjórnskipuninni á Íslandi, þannig að undirskriftir til framboðs forseta verði fleiri og það sé styrkari stoð sett á embættið,“ segir Jón. 

Ætlar að sjá hvort þjóðin sé sammála

Þá vill hann sjá núverandi forseta verða talsmann þessa breytinga og að hann leiði þjóðina inn í þessa nýju framtíð. 

Aðspurður segist hann hafa fengið mikil viðbrögð við undirskriftasöfnuninni. Miðað við það sem hann heyri úti í samfélaginu séu allir að vonast til þess að Guðni skipti um skoðun. 

„Ég vil kasta þessu út í kosmósið og sjá hvort þjóðin sé ekki sammála mér.“

Staðfastur forseti mikilvægur

Hann segir mikilvægt að þjóðin hafi staðfastan og góðan forseta í fjögur ár í til viðbótar, annars sé þjóðin að fá nýjan biskup, nýja ríkisstjórn og nýjan forseta á stuttu tímabili. 

Að lokum bætir Jón við að honum þyki skrítið að einungis þurfi 1.500 undirskriftir til að verða mögulegur forseti Íslands. Það mættu vera mun fleiri undirskriftir, í svona margslungnu samfélagi eins og Ísland er að verða, segir hann. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert