Nágrannar láti lögregluna vita

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hvetur fólk til að láta vita um grunsamlegar mannaferðir núna um páskana þegar viðbúið er að margir verði á faraldsfæti.

Fram kemur að innbrotsþjófar fylgist gjarnan með húsum áður en þeir láti til skarar skríða, hringi jafnvel dyrabjöllunni og þykist vera að spyrja eftir einhverjum.

„Munið að það er betra að hringja einu sinni of oft í lögregluna með upplýsingar af þessu tagi en einu sinni of sjaldan. Lögreglan vill enn fremur minna á mikilvægi þess að fólk gangi tryggilega frá heimilum sínum, t.d. að loka gluggum, þegar það fer að heiman og ekki er úr vegi að tilkynna nágrönnum um slíkt, en nágrannavarsla getur skipt sköpum þegar kemur að því að upplýsa innbrot eða koma í veg fyrir þau,“ segir lögreglan á Facebook og bætir við að best sé að hafa útiljósin kveikt ef þau eru til staðar.

Einnig segir hún mikilvægt að fólk upplýsi ekki um fjarveru sína fyrir allra augum þegar farið er í frí, t.d. með tilkynningu á samfélagsmiðlum.

Upplýsingum má koma á framfæri í síma 444 1000 eða í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu vegna yfirstandandi innbrots skal undantekningarlaust hringja í 112.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert