Segir tímasetningu páska ekki hjálpa

Fyrri umræða um fjármálaáætlunina átti upphaflega að vera 19. mars …
Fyrri umræða um fjármálaáætlunina átti upphaflega að vera 19. mars en tafir urðu á því. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjármálaáætlun er í megindráttum tilbúin og verður lögð fram eftir páska. Til skoðunar er af hálfu stjórnvalda að svara kalli fyrirtækja í Grindavík um tryggingu afurða.

Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, í skriflegu svari til mbl.is.

„Fjármálaáætlun er á lokametrunum og er í megindráttum tilbúin. Frágangsvinna og samræming er eftir og verður lögð fram fljótlega eftir páska,“ segir Þórdís í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is.

Tafir á fjármálaáætlun

Fyrri umræða um fjármálaáætlunina átti upphaflega að vera 19. mars en tafir urðu á því og verður hún því ekki fyrr en eftir páska.

„Þessi stóru verkefni vegna jarðhræringa og vegna kjarasamninga hafa verið tímafrek og þá hjálpar tímasetning páska ekki að þessu sinni,“ segir hún spurð um seinkunina.

Fyrirtækin vilja tryggja afurðir

Á fundi ríkisstjórnar í gær voru rædd málefni fyrirtækja í Grindavík. Spurð til hvaða úrræða verði gripið til fyrir fyrirtæki í Grindavík segir Þórdís að búið sé að fara í ýmiss konar stuðning.

Nefnir hún til dæmis að það sé þegar búið að greiða hluta launa starfsfólks og annan rekstrarstuðning.

„Legið hefur fyrir að framhald og framvinda frekari stuðningsúrræða færi eftir því hvernig mál þróast. Það sem helst er kallað eftir frá fyrirtækjum sem vilja halda starfsemi áfram í Grindavík snýr að tryggingu afurða fyrirtækja sem starfa í Grindavík. Það er í sérstakri skoðun og vilji stjórnvalda að svara þessari óvissu,“ segir Þórdís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert