Deildarmyrkvi á sólu sjáanlegur á Suðvesturlandi

Bjartast er yfir suðvestur og Vesturlandi í dag og því …
Bjartast er yfir suðvestur og Vesturlandi í dag og því mun deildarmyrkvinn líklegast sjást þaðan. mbl.is/Kristinn Magnússon

Deildarmyrkvi á sólu mun sjást frá öllu landinu í dag ef veður leyfir. Frá Reykjavík sést allur myrkvinn en á Austurlandi sest sólin á meðan hann stendur yfir. 

Þetta kemur fram á Stjörnufræðivefnum sem Sævar Helgi Bragason heldur úti. Þar er jafnframt útskýrt að tunglið muni hylja um 40% af sólinni frá Íslandi séð en í Mexíkó, Bandaríkjunum og Kanada verður almyrkvi.

Til að sjá deildarmyrkvann þarf að nota hlífðarbúnað, til dæmis sólmyrkvagleraugu.

Misjafnt eftir landshlutum hversu lengi deildarmyrkvinn sést 

Í Reykjavík hefst sólmyrkvinn kl. 18:49 þegar sól er lágt á lofti í vestri og er í hámarki kl. 19:39, en sólin er þá aðeins tæplega sex gráður yfir sjóndeildarhring, eða svo lágt á lofti að gæta þarf að því að háar byggingar eða tré skyggi ekki á.

Deildarmyrkvanum lýkur síðan rétt fyrir sólsetur í Reykjavík eða klukkan 20:28, en við hámark hans hylur tunglið á tæplega 47% sólar. 

Frá Egilsstöðum hefst deildarmyrkvinn kl. 18:50 og er í hámarki kl. 19:38. Þá er sólin aðeins tæplega þrjár gráður yfir sjóndeildarhring. Sólin sest síðan kl. 20:12, eða áður en deildarmyrkvanum lýkur, frá Austurlandi sést því deildarmyrkvað sólsetur en til að sjá það þarf að koma sér fyrir þar sem fjöll skyggja ekki á.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands er bjartast yfir á Suðvestur- og Vesturlandi og því góðar líkur á því að deildarmyrkvinn sjáist þaðan. Það er þó skýjahula yfir Norður- og Austurlandi og því litlar líkur á að deildarmyrkvinn sjáist þaðan. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert