Hver er nýi ráðherrann?

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir mun taka við sem matvælaráðherra.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir mun taka við sem matvælaráðherra. mbl.is/Arnþór Birkisson

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs (VG), mun taka við matvælaráðuneytinu af Svandísi Svavarsdóttur í kvöld á ríkisráðsfundi, en Svandís tekur við innviðaráðuneytinu. 

Bjarkey hefur verið þingmaður Norðausturkjördæmis fyrir VG síðan 2013. Fyrir það hafði hún tekið sæti á þingi sem varaþingmaður VG með hléum frá árinu 2004.

Leiddi lista Norðausturkjördæmis 2021

Bjarkey laut í lægra haldi árið 2021 í forvali Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi fyrir Óla Halldórssyni. Hún þáði annað sætið en stuttu síðar vék Óli frá því að leiða listann og tók Bjarkey við fyrsta sæti listans.

Bjarkey hafði áður vermt annað sæti listans í Alþingiskosningunum 2017 á eftir Steingrími J. Sigfússyni sem var lengi vel fyrsti þingmaður VG í kjördæminu. 

Fjölbreyttur ferill á Ólafsfirði

Bjarkey hlaut gráðu frá kennslu- og menntunarfræðideild Háskóla Íslands með áherslu á upplýsingatækni og samfélagsgreinar árið 2005. Hún bætti við sig viðbótar diplómu í náms- og starfsráðgjöf frá sama skóla árið 2008.

Hún hefur sinnt ýmsum störfum innan opinberra geirans og innan menntakerfisins og haldið úti veitingarrekstri. Hún starfaði á sýsluskrifstofu Ólafsfjarðar árin 1988 til 1991. Þá vann hún lengi vel við rekstur og skrifstofuhald Vélsmiðju Ólafsfjarðar eða í sextán ár. Samhliða því rak hún fyrirtækið Íslensk tónbönd sem framleiddi kassettur. 

Bjarkey færði sig um sess upp úr aldamótum og fór að sinna störfum innan menntageirans. Þannig var hún leiðbeinandi við Barnaskóla Ólafsfjarðar 2000 til 2005 og kennari og náms- og starfsráðgjafi í Grunnskóla Ólafsfjarðar 2005 til 2008. 

Í kjölfarið tók hún við stöðu sem náms- og starfsráðgjafi í Menntaskólanum á Tröllaskaga og starfaði sem brautarstjóri starfsbrautar frá 2011 til 2013.

Samhliða þessum störfum hefur hún sinnt veitingarekstri síðan 2005. 

Starfað fyrir VG í tæp tuttugu ár

Bjarkey tók við stöðu sem varaformaður VG í norðausturkjördæmi árið 2003 og hefur fyrir vikið starfað í þágu VG í rúm tuttugu ár.

Hún starfaði sem bæjarfulltrúi í Ólafsfirði 2006 til 2013. Formaður svæðisfélags VG í Ólafsfirði 2003 til 2009. Varaformaður VG í Norðausturkjördæmi 2003, formaður 2005–2008, gjaldkeri 2008 til 2013. Formaður sveitarstjórnarráðs VG 2010 til 2013 og setið í stjórn VG frá 2009.

Bjarkey tók við föstu þingsæti árið 2013 og starfaði sem formaður þingflokks VG frá 2017 til 2021. 

Þá hefur hún tekið sæti í fjárlaganefnd, allsherjar- og menntamálanefnd, atvinnuveganefnd, utanríkismálanefnd, kjörbréfanefnd, þingskapanefnd, velferðarnefnd og starfaði sem formaður fjárlaganefndar frá 2021 til 2023 og sem formaður velferðarnefndar árið 2023. 

Hún sat sem fulltrúi í Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES frá 2017 til 2021 og 2021 til dagsins í dag og í þingmannanefnd Íslands og ESB  frá 2018 til 2021 og frá 2022 til dagsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert