Reykjavík stofnar loftslagssjóð ungs fólks

Markmið sjóðsins er að virkja ungt fólk í leit að …
Markmið sjóðsins er að virkja ungt fólk í leit að lausnum á loftslagsvandanum en reykvísk ungmenni á aldrinum 15-24 ára verða hvött til þátttöku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Reykjavíkurborg hefur hlotið styrk frá Bloomberg Philanthropies til að stofna loftslagssjóð ungs fólks í Reykjavík. 

Þetta kemur fram á vef Reykjavíkurborgar en Reykjavík er ein af hundrað borgum í 38 löndum víða um heim sem fær fjármagn úr þessum nýja sjóði.

Markmið sjóðsins er að virkja ungt fólk í leit að lausnum á loftslagsvandanum en reykvísk ungmenni á aldrinum 15-24 ára verða hvött til þátttöku. 

Styrkurinn hljóðar upp á sjö milljónir króna með möguleika á 14 milljóna króna viðbótarframlagi og er tilgangurinn að styrkja margs konar smærri verkefni sem ungmennin stýra sjálf.

Hlökkum til að stofna þennan spennandi sjóð

„Við erum þakklát fyrir að hafa fengið þennan styrk og að það sé horft til Reykjavíkur í loftslagsmálum. Við hlökkum til að stofna þennan spennandi loftslagssjóð,“ er haft eftir Degi B. Eggertssyni, formanni borgarráðs.

„Ég held að borgin gæti haft góðan stuðning af loftslagsráði ungs fólks og mikið gagn af því að styðja ungt fólk til góðra grænna verkefna.“

Uppfært: Í fyrri útgáfu sagði að borgirnar sem taka þátt í verkefninu væru 101, en þær eru hundrað sléttar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert