Umdeildur ráðherrakapall lagður á borðið

Sigurður Ingi Jóhannsson er þriðji fjármálaráðherrann á þessu kjörtímabili.
Sigurður Ingi Jóhannsson er þriðji fjármálaráðherrann á þessu kjörtímabili. mbl.is/Kristinn Magnússon

Umdeildur ráðherrakapall var lagður á borð landsmanna í morgun er ráðherrar ríkisstjórnarflokkanna tóku við og afhentu lykla ráðuneyta.

Fimm ráðuneyti fengu „nýjan“ ráðherra í morgun, þar af einn sem ekki hefur gegnt embætti ráðherra áður. 

Ráðherrakapallinn, sem fór af stað vegna fordæmalauss forsetaframboðs Katrínar Jakobsdóttur fyrrverandi forsætisráðherra, hefur lagst misvel í landann sem og stjórnarandstöðuna.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, kveðst íhuga vantrauststillögu á ríkisstjórnina í heild sinni eða Bjarna Benediktsson, nýjan forsætisráðherra. Þá var vantrauststillaga á hendur Svandísi Svavarsdóttur innviðaráðherra lögð fyrir Alþingi, þegar hún var matvælaráðherra. 

Þá hafa á vel annan tug þúsunda lýst því yfir að þeir styðji ekki Bjarna í embætti forsætisráðherra á Ísland.is.

Bjarni forsætisráðherra á ný

Lyklaafhending hófst klukkan níu í morgun í Stjórnarráðinu, sem hýsir skrifstofu forsætisráðherra, þar sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tók við lyklum Katrínar. 

Þetta er í annað skiptið á hálfu ári sem Bjarni tekur við nýju ráðherraembætti en hann sagði af sér í október sem fjármálaráðherra í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis um söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

Í álitinu kom fram að Bjarna hefði, að mati umboðsmanns, brostið hæfi er hann samþykkti til­lögu Banka­sýslu rík­is­ins um söl­una á 22,5% hlut í Íslands­bank­ana. 

Þegar þetta er ritað hafa þegar 14 þúsund Íslendingar sett nafn sitt á undirskriftalista á Ísland.is sem ber yfirskriftina: Bjarni Benediktsson hefur ekki minn stuðning sem forsætisráðherra.

Fjölgar undirskriftunum ört.

Bjarni tekur við forsætisráðuneytinu af Katrínu.
Bjarni tekur við forsætisráðuneytinu af Katrínu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þess má geta að þetta er í annað skiptið sem Bjarni gegnir embætti forsætisráðherra Íslands en hann gegndi því embætti einnig þegar Björt Framtíð, Viðreisn og Sjálfstæðisflokkurinn mynduðu saman ríkisstjórn í kjölfar alþingiskosninganna árið 2016.

Björt framtíð sleit stjórnarsamstarfinu í september árið 2017 vegna „alvarlegs trúnaðarbrests“ eins og fram kom í tilkynningu flokksins.

Þriðji fjármálaráðherrann á kjörtímabilinu

Klukkan hálftíu í morgun var förinni svo heitið í fjármála- og efnahagsráðuneytið.

Þar tók Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi innviðaráðherra, við lyklunum af Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins.

Sigurður Ingi er þriðji fjármálaráðherra Íslands á þessu kjörtímabili en eins og rifjað var upp hér að ofan lét Bjarni af embættinu í október og átti þá stólaskipti við Þórdísi Kolbrúnu sem gegndi áður embætti utanríkisráðherra.

Sigurður Ingi er nýr fjármálaráðherra.
Sigurður Ingi er nýr fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýr ráðherrastóll Svandísar

Klukkan tíu var komið að lyklaskiptum í innviðaráðuneytinu. Sigurður Ingi afhenti þar Svandísi Svavarsdóttur lyklana.

Svandís lætur af embætti sjávarútvegs- og matvælaráðherra.

Eins og áður kom fram var lögð fram vantrauststillaga gegn henni vegna lögbrots er hún bannaði veiðar á langreyðum síðasta sumar.

Svandís tekur við innviðaráðuneytinu af Sigurði Inga.
Svandís tekur við innviðaráðuneytinu af Sigurði Inga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Snúin aftur

Klukkan hálfellefu tók Þórdís Kolbrún aftur við lyklunum að utanríkisráðuneytinu. Embættinu sem henni var falið að sinna í kjölfar kosninganna árið 2021.

Skilur hún við fjármálaráðuneytið eftir hálft ár í starfi.

Þórdís snýr aftur í utanríkisráðuneytið.
Þórdís snýr aftur í utanríkisráðuneytið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýr ráðherra tekur við lyklum

Klukkan ellefu var nýr ráðherra kynntur til leiks í matvælaráðuneytinu, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Bjarkey tók við lyklunum af samflokkskonu sinni Svandísi, sem eins og áður sagði braut lög er hún gegndi embættinu en er nú tekin við nýjum ráðherrastóli.

Bjarkey Olsen tekur við lyklunum af Svandísi.
Bjarkey Olsen tekur við lyklunum af Svandísi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert