Ráðuneytisstjórar hafa stólaskipti

Benedikt Árnason mun taka taka við embætti ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu …
Benedikt Árnason mun taka taka við embætti ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu og Bryndís Hlöðversdóttir mun taka við embætti ráðuneytisstjóra í matvælaráðuneytinu. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Ráðuneytisstjórar í forsætisráðuneytinu og matvælaráðuneytinu munu skipta um ráðuneyti, en samkomulag um flutninginn hefur náðst á milli forsætis- og matvælaráðherra.

Bryndís Hlöðversdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, mun frá og með 15. apríl 2024 taka við embætti ráðuneytisstjóra í matvælaráðuneytinu. Samtímis mun Benedikt Árnason, ráðuneytisstjóri í matvælaráðuneytinu, taka við embætti ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu.

Eftir að Katrín Jakobsdóttir sagði af sér sem forsætisráðherra vegna forsetaframboðs kom Bjani Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, nýr inn sem forsætisráðherra.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, samflokkskona Katrínar í Vinstri grænum, kom ný inn í ríkisstjórnina og tók við matvælaráðuneytinu.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Benedikt kemur í forsætisráðuneytið, en hann hóf þar fyrst störf árið 2013 sem efnahagsráðgjafi forsætisráðherra og ráðherranefnda ríkisstjórnarinnar og frá 2016 til 2021 gegndi hann embætti skrifstofustjóra skrifstofu stefnumála og síðar staðgengill ráðuneytisstjóra. Árið 2021 var hann svo skipaður ráðuneytisstjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og varð síðar ráðuneytisstjóri í matvælaráðuneytinu.

Bryndís var skipuð ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu árið 2019, en hún hafði áður gegnt embætti ríkissáttasemjara frá 2015 og verið rektor við Háskólann á Bifröst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert