„Hvað ef það hefði verið lokuð heiði?“

Rúm þrjú ár eru síðan aurskriður féllu á Seyðisfirði.
Rúm þrjú ár eru síðan aurskriður féllu á Seyðisfirði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúm þrjú ár eru nú liðin frá því að aurskiðurnar féllu á Seyðisfirði en ógnin í fjallinu lifir enn. Hættan á snjóflóðum og aurskriðum er reglulega við lýði og þurfa almannavarnir og íbúar sífellt að vera á varðbergi. Náttúruhamfarir sem dynja á íbúum annars staðar á landinu ýfa upp gömul sár.

Einungis er rúmt ár liðið frá því að snjóflóð féll á íbúðarhús í Neskaupstað og mátti þá litlu muna að mannslíf týndust.

„Þá var einmitt snjóflóðahætta hér og við vorum í viku, minnir mig, þar sem sumir þurftu að rýma og í óvissuástandi. Það fannst fólki óþægilegt,“ segir Dagný Erla Ómarsdóttir, íbúi á Seyðisfirði og bætir við að nú síðast um páskana hafi Seyðfirðingar verið innilokaðir vegna fannfergis í fimm daga.

„Maður hugsar alveg til baka þegar skriðurnar voru: Hvað ef það hefði verið lokuð heiði?“

Dagný Erla er gestur í hlaðvarpi Morgunblaðsins, Hringferðin. Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan. 

 

Aukið eftirlit á Seyðisfirði

Eftirlit með Seyðisfjarðarbæ hefur aukist til muna í kjölfar aurskriðnanna og er bygging ofanflóðavarna í fullum gangi.

„Við vitum að það er fylgst vel með okkur og það er mjög gott og veitir manni ákveðna öryggistilfinningu.“

En bera íbúar enn traust til yfirvalda eftir að aurskriður féllu á hús á svæðum sem ekki var búið að rýma?

„Það er margt sem mátti betur fara á þessum tíma og margt sem fólk lærði sem ég get ekki farið með hér en yfir það heila held ég að þetta hafi gengið vel. En það var margt sem margir lærðu, bæði við og örugglega yfirvöld.“

Hún rifjar upp að rétt áður en aurskriðurnar féllu hafi sveitarfélögin verið sameinuð sem hún telur hafa verið mikla lukku fyrir Seyðfirðinga.

„Ég veit alveg að ef við hefðum ekki verið sameinuð hefðum við fengið sama stuðning en þetta þjappaði held ég okkur svolítið saman.“

Dagný Erla Ómarsdóttir er gestur í Hringferðinni.
Dagný Erla Ómarsdóttir er gestur í Hringferðinni. mbl.is/Brynjólfur Löve

Seyðfirðingar standa saman

Þrátt fyrir allt segir Dagný engan fólksflótta hafa verið úr samfélaginu, þvert á móti hafi íbúðaverð í bænum hækkað. Hún viðurkennir þó að það hafi hvarflað að sér að flytja frá Seyðisfirði en hún hafi fljótt vikið frá þeirri hugsun.

„Ég man alveg að við hugsuðum: Jæja, nú er bara tækifærið, nú förum við. Nú flytjum við. Ég veit að það er eðlilegt að hugsa þannig. En svo bara nei, við erum ekkert að fara neitt. Við ætlum að vera með. Foreldrar mínir búa hérna, systir mín, við erum alveg svolítið mörg. En svo vill maður vera hérna, byggja upp og taka þátt. Mér finnst samfélagið vera sterkt. Við stöndum saman og í þessum áföllum höfum við staðið saman. Svo finnur maður líka auðvitað að þetta er ekkert sem tekur smástund, bæði fyrir hausinn að jafna sig og allt þetta. Við erum enn þá í þessum fasa. Við þurfum bara að gera það, standa keik.“

Dagný virðist sátt við þá ákvörðun að hafa orðið um kyrrt. Í dag á hún íbúð við hlið heimilis foreldra sinna og starfar sem verkefnastjóri íþrótta- og æskulýðsmála hjá Múlaþingi. „Það er rosa gott að vera hérna, eða mér finnst það,“ segir Dagný og tekur fram að sínar eftirlætisstundir séu þegar hún röltir heim með dætrum sínum og rekst á mömmu sína.

En hvað er það sem gæti fengið ungt fólk til að setjast að á Seyðisfirði og vera þar til frambúðar?

„Er það ekki bara frelsið og kannski tíminn. Maður upplifir að maður sé að græða tíma hérna. Ég er tvær mínútur í vinnuna og ég þarf ekki að sitja í bíl. Það eru kostir og gallar við allt, að sjálfsögðu. Ég held að ég sé ótrúlega flink í að láta það duga sem ég hef og gera gott úr því. Við getum að vísu ekki æft allar íþróttir sem við viljum en það sem er í boði, við erum þakklát fyrir það.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert