„Þá væru það meiriháttar tíðindi“

Ólafur Þ. Harðarson vill sjá fleiri kannanir áður en hann …
Ólafur Þ. Harðarson vill sjá fleiri kannanir áður en hann getur metið það hvort að fylgi Katrínar sé raunverulega að minnka. Skjáskot úr þættinum Ráðherrann

Bíða þarf eftir næstu könnunum til að átta sig á því hvort að fylgistap Katrínar Jakobsdóttur í könnun Prósents, samanborið við kannanir Maskínu og Gallup, sé slembisveifla eða raunverulegt fylgistap.

Ef fylgisaukning Höllu Hrundar Logadóttur í könnun Prósents sést í komandi könnunum þá eru það meiriháttar tíðindi.

Þetta segir stjórnmálafræðingurinn Ólafur Þ. Harðarson í samtali við mbl.is.

Mesta breytingin er fylgi Höllu

Í könnun Prósents fyrir Morgunblaðið mældist Katrín með 25,3% fylgi meðal þeirra sem tóku afstöðu. Í könnun Maskínu mældist hún með 32,9% fylgi og í könnun Gallups mældist hún með 30% fylgi.

„Ef við lítum á sögu þessara fyrirtækja þá hefur það verið algengast að Maskína og Gallup beri vel saman. Prósent hefur hins vegar verið með dálítið öðruvísi niðurstöðu heldur en þeir, sem ég veit ekki alveg í hverju liggur,“ segir Ólafur.

Það er þó margt sem ber saman með öllum þremur könnunum. Nefnir hann sem dæmi fylgið hjá Baldri Þórhallssyni, Jóni Gnarr og Höllu Tómasdóttur. Þá má einnig sjá svipaðar niðurstöður ef skoðað er aldur kjósenda hvers frambjóðenda og hvaða stjórnmálaflokka þeir styðja.

„Mesta breytingin sem maður sér á milli annars vegar Maskínu og Gallups og hins vegar Prósents er fylgi Höllu Hrundar sem er 4-6% í fyrr könnunum en hoppar upp í 12% hjá Prósent. Það verður mjög fróðlegt að sjá hvort að það líka sé raunverulega breyting.

Það eru kannski meiri líkur á því að það sé kannski breyting vegna þess að Halla kemur síðar fram. Ef að við sjáum í næstu könnunum að hún haldi þessu fylgi, eða bætir við það, þá væru það meiriháttar tíðindi,“ segir Ólafur.

Gerir ekki ráð fyrir fleir „alvöru“ framboðum

Honum þykir ólíklegt að fleiri „alvöru“ frambjóðendur stígi fram áður en framboðsfresti lýkur eftir 10 daga.

Allar kannanir sem framkvæmdar hafa verið benda til þess að Katrín, Baldur og Jón Gnarr séu með mesta fylgið. Í könnunum Maskínu og Gallups mælist enginn annar á eftir þeim með meira en 7,3% fylgi en í könnun Prósents er Halla Hrund með 12,1%. Prósent könnunin er eina könnunin sem framkvæmd er að fullu eftir að Halla Hrund tilkynnti framboð.

Spurður hvort að líklegt sé að fólk flykkist á bak við efstu frambjóðendur þegar fram líða stundir segir Ólafur ómögulegt að segja til um það. Það sé að ýmsu leyti rökrétt og taktískt en reynslan bendi ekki endilega til þess að það muni gerast.

„Það er lang líklegast að þetta verði aðallega slagur á milli fjögurra eða fimm, jafnvel færri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert