Auðvitað er fólk að búa til fyrirsagnir

Róbert Frosti Þorkelsson úr Stjörnunni með boltann í kvöld.
Róbert Frosti Þorkelsson úr Stjörnunni með boltann í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, var að vonum kátur er hann ræddi við mbl.is í kvöld. Stjarnan vann Fylki, 1:0, í 4. umferð Bestu deildarinnar í fótbolta á útivelli. Sigurmarkið kom í uppbótartíma.

„Þetta er geggjað. Maður hafði trú allan tímann og ég er ánægður með að við fórum ekki í löngu boltana heldur héldum áfram að spila. Þetta var góð fyrirgjöf á góðum stað á öfluga menn og þetta var frábært,“ sagði Jökull og hélt áfram:

„Þetta var svipaður leikur og ég átti von á. Við vissum að þeir væru þéttir. Þetta er gott lið með frábæran þjálfara. Ég vissi að þetta yrði erfitt. Mér fannst við spila boltanum of auðveldlega frá okkur og upp í hendurnar á þeim.

Jökull Elísabetarson.
Jökull Elísabetarson. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Við þurfum að laga það og ná betri stjórn. Við vorum mikið með boltann en þeir fengu of mörg upphlaup. Ég átti ekki von á opnum leik og þetta var það svo sannarlega ekki,“ sagði hann.

Stjarnan var stigalaus eftir tvo fyrstu leikina en hefur nú unnið tvo leiki í röð, án þess að fá á sig mark. Stjörnumenn unnu Val í síðustu umferð, 1:0. Einhverjir höfðu áhyggjur af liðinu í Garðabænum eftir stigalausar fyrstu umferðir.

„Ég var pollrólegur eftir þessa fyrstu tvo leiki. Auðvitað er fólk að búa til fyrirsagnir og ég skil það. Það er gott að fólk hafi áhuga og skoðun á því sem við erum að gera. Þá erum við að gera eitthvað rétt. Við getum enn þá gert betur og við ætlum okkur að gera það.“

Einhverjum þjálfurum finnst 1:0-sigrar sætari en aðrir sigrar. Jökull er ekki alveg á því. „Mér finnst skemmtilegra að vinna 4:0 en á meðan við höldum hreinu og spilum vel, þá er ég sáttur. Við spiluðum ágætlega í kvöld,“ sagði Jökull.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert