Vantrauststillagan tekin fyrir á morgun

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis.
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis. Kristinn Magnússon

Vantrauststillaga Flokks fólksins og Pírata á ríkisstjórnina verður tekin fyrir klukkan 17 á Alþingi á morgun en vantrauststillagan gengur út á að þing verði rofið og boðað til kosninga.

„Ég átti fund áðan með þingflokksformönnum til þess að ræða tímasetningu og fyrirkomulag og niðurstaðan varð sú að umræðan muni hefjast klukkan 17 á morgun,“ segir Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, við mbl.is.

Ekki náðist samkomulag

Birgir segir að ekki hafi náðst samkomulag á milli allra þingflokka um fyrirkomulag umræðunnar og segir að ákvæði þingskapa muni gilda.

„Það er heimilt að semja um sérstakt fyrirkomulag umræðu en ef einhverjir þingflokkar eru ekki sáttir þá gilda ákvæði þingskapa. Í þessu tilviki þegar um er að ræða vantrauststillögu þá eru sömu reglur sem gilda og við aðra umræðu þingsályktunartillagna sem felur í sér að ræðurnar geta dregist verulega á langinn,“ segir Birgir.

Hann segist eiga von á að umræðurnar á morgun geti dregist fram eftir kvöldi og jafnvel fram á nótt ef svo ber undir. Það fari þó eftir því hversu margir taki þátt í umræðunni og hvernig menn nýti ræðutímann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert