Starfsfólk gæti fengið reikning frá Skattinum

Hlunnindi starfsfólks kunna að vera umfram það sem Skatturinn heimilar …
Hlunnindi starfsfólks kunna að vera umfram það sem Skatturinn heimilar án þess að greiddur sé af því skattur. Samsett mynd

Stór hluti starfsfólks Landsvirkjunar kann að þurfa að greiða skatt af hlunnindum sem tengjast árshátíð félagsins á Egilsstöðum um liðna helgi.

Helgast það af reglum Skattsins sem kveða á um að hlunnindi til starfsmanna, svo sem „árshátíðir og starfsmannaferðir, jólagleði og sambærilegar samkomur“ séu skattfrjálsar ef upphæð nemur ekki hærri en 175.000 krónur á hvern starfsmann.

Fari kostnaður yfir þessa fjárhæð er hún skattskyld eins og um tekjuskatt sé að ræða, segir á heimasíðu Skattsins. 

Hámark hlunnindagreiðslna er 175 þúsund krónur.
Hámark hlunnindagreiðslna er 175 þúsund krónur. Skjáskot af heimasíðu Skattsins.

200 þúsund krónur að meðaltali

Eins og fram hefur komið hélt ríkisfyrirtækið veglega árshátíð um liðna helgi á Egilsstöðum.

Áætlaður kostnaður við árshátíðina er um 90 milljónir króna og var hún að nær öllu leyti greidd af Landsvirkjun. Starfsmannafélag greiddi ekkert fyrir árshátíðiða að sögn Þóru Arnórsdóttir, samskiptastjóra fyrirtækisins. 

Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun tóku 450 manns þátt í árshátíðinni og var skiptingin þannig að um 60% gesta voru starfsfólk og 40% voru makar starfsmanna.

Sé miðað við þá tölu fer nærri að 270 starfsmenn hafi sótt árshátíðina og 180 makar.

Kostnaður við maka tilheyrir starfsfólki 

Ef miðað er við 90 milljóna króna áætlun Landsvirkjunar fer nærri að kostnaðurinn hafi verið um 200 þúsund krónur fyrir hvern gest að meðaltali.

Athygli vekur að samkvæmt skattareglum um hlunnindi starfsfólks ber að líta svo á að starfsfólk beri ábyrgð á maka sínum í skattalegu tilliti.

Því er það þannig að þannig að þeir 180 starfsmanna sem komu með maka á árshátíðina fengu hlunnindi sem nema nærri 400 þúsund krónum að meðaltali.

Hér ber að taka fram að makar greiddu átta þúsund krónur fyrir árshátíðina eða rúmar 1,4 milljónir króna í heild.

Er því nær að tala um að kostnaðurinn hafi verið 392 þúsund krónum á þessa starfsmenn að meðaltali. Er það ríflega 217 þúsund krónum yfir þeim 175 þúsund króna skattahlunnindum sem heimil eru samkvæmt reglum Skattsins árlega. Ber sá hluti skattskyldu. 

Eru þá ótalin jólahlaðborð, jólagjafir og annað sem kann að falla til á hverju ári.

Enn hærri kostnaður tengdur sumum

Enn fremur ber að taka fram einhverjir starfsmenn sem búa nær Egilsstöðum komu á staðinn í rútum og ætla má að kostnaðurinn á starfsmenn sem komu frá Reykjavík t.a.m. hafi verið talsvert hærri en meðaltalið gefur til kynna.

Þannig fengust þær upplýsingar frá Landsvirkjun að flogið hefði verið með starfsfólk í Boeing-þotu sem Landsvirkjun tók á leigu, tvívegis fram og til baka frá Reykjavík til Egilsstaða á föstudag, einu sinni fram og til baka á laugardag og tvívegis frá Egilsstöðum til Reykjavíkur á sunnudag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert