Ráðherra um árshátíðina: „Hljómar frekar hátt“

Um helgina hélt Landsvirkjun árshátíð á Egilsstöðum. Kostnaðurinn við árshátíðina …
Um helgina hélt Landsvirkjun árshátíð á Egilsstöðum. Kostnaðurinn við árshátíðina hljóp á tugum milljóna, en þó ekki yfir 100 milljónum að sögn samskiptastjóra. Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra segir þetta hljóma hátt í sín eyru. Samsett mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra segir að kostnaður við árshátíð Landsvirkjunar á Egilsstöðum nú um helgina hljómi nokkuð hár.

Sjálfsagt sé að fá frekari útskýringar á því hvað árshátíðin hafi kostað og hvort fyrirtækið hafi borgað allan kostnaðinn eða starfsmannafélag komið þar að.

Þetta sagði hann í samtali við mbl.is eftir kynningu sína á fjármálaáætlun 2025-2029.

Í kynningu sinni lagði Sigurður Ingi nokkra áherslu á að gæta þyrfti að útgjöldum og að passa þyrfti upp á að útgjöld og innkoma ríkisins myndu haldast saman þannig að hægt væri að ná niður hallanum á ríkissjóði.

„Nú bara þekki ég ekki málið nákvæmlega og hvernig þetta er tilkomið, en við þekkjum að árshátíðir hjá fyrirtækjum eru alla veganna. Ég gladdist allavega yfir að árshátíðin væri haldin innanlands en ekki erlendis eins og er í mörgum tilvikum,“ sagði Sigurður Ingi.

Rándýr árshátíð

Ríkisútvarpið fjallaði um árshátíðina í gær og hafði eftir Þóru Arnórsdóttur, forstöðumanni samskipta hjá Landsvirkjun, að árshátíðin hefði verið „rándýr“ og kostað tugi milljóna, en þó ekki farið yfir 100 milljónir.

Um 300 starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu, en með mökum var um að ræða um 400 manns og komu á bilinu 200-300 þeirra frá Reykjavík með Boeing 757-þotu Icelandair. Hefur Rúv eftir Þóru að gist hafi verið í tvær nætur á hóteli, árshátíð seinna kvöldið og svo gestum boðið á baðstaðinn Vök, Óbyggðasafnið og á léttara kvöld á föstudaginn með fingramat og trúbador.

Sé kostnaði deilt niður á fjölda starfsfólks væri 50 milljóna árshátíð um 167 þúsund á hvern starfsmann, en ef kostnaðurinn er tæplega 100 milljónir væri það 333 þúsund á hvern starfsmann.

880-1.760 milljónir fyrir Landspítala

„Þetta hljómar frekar hátt í mín eyru,“ segir Sigurður Ingi spurður út í þessar tölur, en til samanburðar myndi þetta þýða kostnaður upp á 880-1.760 milljónir ef Landspítalinn héldi svipaða árshátíð fyrir sitt starfsfólk.

Ætlar þú að leita skýringa hjá Landsvirkjun?

„Það er sjálfsagt að fá útskýringar á því og hvort starfsmannafélagið hafi tekið þátt í þessu, en ég þekki það ekki,“ segir Sigurður Ingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert