Ekið á hjólreiðamann

Lögreglustöð 1 sinnti tveimur reiðhjólaslysum.
Lögreglustöð 1 sinnti tveimur reiðhjólaslysum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um umferðarslys þar sem ekið hafði verið á hjólreiðamann. Slysið átti sér stað í umdæmi lögreglustöðvar 1, sem sinn­ir verk­efn­um í stór­um hluta borg­ar­inn­ar og á Seltjarn­ar­nesi. Ekkert er frekar skráð um málið í dagbók lögreglu. 

Þá barst lögreglu tilkynning um annað reiðhjólaslys, en þar hafði barn fallið í jörðina og var með minniháttar áverka eftir fallið. Barið var flutt með sjúkrabifreið á bráðamóttöku til skoðunar.

Til vandræða á endurvinnslustöð

Lögregluþjónum á lögreglustöð 1 barst einnig tilkynning um ölvaðan mann sem var til vandræða á endurvinnslustöð. Hann veittist að lögreglumönnum sem ætluðu að reyna að tala við hann og var hann að lokum handtekinn og vistaður í fangaklefa þar til rann af honum víman og hægt að taka af honum skýrslu vegna málsins.

Þá var óskað eftir aðstoð lögreglu á veitingastöðum þar sem ölvaðir einstaklingar voru til vandræða. Einnig var óskað eftir aðstoð lögreglu á hóteli vegna óvelkomins einstaklings sem búinn var að koma sér fyrir á hótelinu. Var honum vísað út.

Jafnframt barst lögreglu tilkynning um líkamsárás, en ekki koma fram nánari upplýsingar um hana í dagbók lögreglu.

Innbrot í verslanir

Lögreglustöð 3, sem sinnir verkefnum í Kópavogi og Breiðholti, barst tilkynning um þjófnað úr verslun og innbrot.

Sömuleiðis barst lögreglustöð 4 tilkynning um þjófnað úr verslun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert