Umboðsmaður barna óskar svara vegna Stuðla

Salvör Nordal, umboðsmaður barna.
Salvör Nordal, umboðsmaður barna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Umboðsmaður barna hefur sent bréf til mennta- og barnamálaráðuneytisins vegna fyrirhugaðrar lokunar meðferðardeild Stuðla í sumar. Umboðsmaður óskar eftir því að fá upplýsingar á því hvernig ákvörðun um lokun stuðli að hagsmunum barna.

Nýlega greindi mbl.is frá því að meðferðardeild Stuðla muni, að öllu óbreyttu, standa lokuð í fjórar vikur í sumar, eða frá 12. júlí til 8. ágúst.

Ástæða fyrirhugaðrar lokunar er sögð bæði vegna fjárhagsskorts og að skortur sé á fagfólki til að sinna meðferðinni á meðan sumarleyfi standa yfir.

Vandi barnsins verði umfangsmeiri

„Það gefur auga leið að bið barns eftir nauðsynlegri þjónustu líkt og þessari er til þess fallin að vandi barnsins verði umfangsmeiri,“ segir í bréfi umboðsmanns barna.

Umboðsmaður beinir athygli sinni að ákvæðum Barnasáttmálans. Þar er kveðið á um að öll börn eigi rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem völ er á, auk þess sem stjórnvöld séu skyldug til að tryggja öllum börnum réttindi sín án mismununar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert