Alþjóðleg samvinna í Listasafninu á Akureyri

Safngestir á opnun samsýningarinnar Samspil.
Safngestir á opnun samsýningarinnar Samspil. Ljósmynd/Listasafnið á Akureyri/Daníel Starrason

Samsýningin Samspil stendur nú yfir í Listasafninu á Akureyri. Sýningin er afrakstur vinnu ungmenna af erlendum uppruna á listavinnustofu þar sem þau unnu eigin verk innblásin af völdum verkum í eigu safnsins. Þannig fengu ungmennin tækifæri til að efla þekkingu sína undir handleiðslu starfandi listamanna með áherslu á sköpun og sjálfstæði – að tjá sig á eigin forsendum í gegnum listina.

Stúlkurnar unnu verk innblásin af verkum úr safneign Listasafnsins á …
Stúlkurnar unnu verk innblásin af verkum úr safneign Listasafnsins á Akureyri. Verkum þeirra var þá stillt upp með safnverkunum svo úr varð sýningin Samspil. Ljósmynd/Listasafnið á Akureyri/Daníel Starrason

Hvetja fjölskyldur af erlendum uppruna til þátttöku

Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, verkefnastjóri fræðslu og miðlunar á Listasafninu á Akureyri, segir í samtali við Morgunblaðið að níu stúlkur á aldrinum 12 til 19 ára frá þremur þjóðlöndum hafi tekið þátt í sýningunni. Eru þær frá Afganistan, Venesúela og Úkraínu. Segir hún að með verkefninu vilji safnið ná til breiðari hóps safngesta og hvetja ungmenni af erlendum uppruna, sem og fjölskyldur þeirra, til þátttöku í menningarlífinu.

Níu stúlkur á aldrinum 12-19 ára tóku þátt í sýningunni; …
Níu stúlkur á aldrinum 12-19 ára tóku þátt í sýningunni; Samira Abdullatif og Yasmina Abdullatif frá Úkraínu, Yousra Nayab Yousifi frá Afganistan og þær Feiruz Nasser Morabito, Haysmar Rangel Blanco, Marcela Andrea Rangel Saez, Marcelys Andreina Rangel Saez, Samar Nasser Morabito og Sijem Nasser Morabito frá Venesúela. Ljósmynd/Listasafnið á Akureyri

Allar viðstaddar opnun

Heiða segir leiðbeinendurna, Þóri Hermann Óskarsson og Brák Jónsdóttur, sem nýlega hlaut hvatningarverðlaun Íslensku myndlistarverðlaunanna, hafa hitt stúlkurnar í fjögur skipti. „Fyrst fór fram hugmyndavinna þar sem þær fengu að kíkja í geymslurnar okkar og fengu innblástur þaðan. Svo unnu þær sín verk og að lokum var verkum þeirra stillt upp með verkum úr safneigninni okkar svo úr varð sýningin Samspil.“ Heiða Björk upplifði stúlkurnar ánægðar með verkefnið og sagði þær allar hafa komið á opnun sýningarinnar með fjölskyldum sínum. „Þær voru mjög glaðar að taka myndir og deila.“

Tvær stúlknanna virða fyrir sér verk úr safneigninni.
Tvær stúlknanna virða fyrir sér verk úr safneigninni. Ljósmynd/Listasafnið á Akureyri

Vilja gera meira

Fjölbreytt verk eru á sýningunni, mest máluð og teiknuð. Heiða segir hvorki framhald né sams konar verkefni á teikniborðinu en mikill vilji sé innan safnsins að byggja á reynslunni og gera meira með fólki af erlendum uppruna. Það velti þó á ýmsu, eins og fjármögnun, en verkefnið er unnið í samstarfi við velferðarsvið og fræðslu- og lýðheilsusvið Akureyrarbæjar og styrkt af Barnamenningarsjóði Íslands.

Stúlkurnar unnu fjölbreytt verk, mest máluð og teiknuð.
Stúlkurnar unnu fjölbreytt verk, mest máluð og teiknuð. Ljósmynd/Listasafnið á Akureyri

Getur hugsað sér að læra

Úkraínsku systurnar Samira (á 14. ári) og Yasmina (á 12. ári) tóku þátt í verkefninu. Samira segist ekki hafa verið í myndlist áður en hún tók þátt í Samspili. Það sé aðeins óþægilegt að hafa útbúið verk sem allir hafi tækifæri á að sjá en spennandi í bland. Samira málaði tvær myndir; stjörnubjarta nótt, hvar máninn skín og skýin glitra, og kött sem situr og rólar sér í trjárólu við hlið tjarnar og horfir til fjalla í baksýn. Hún segist geta hugsað sér að læra meira í listsköpun í kjölfar verkefnisins.

Systurnar Samira og Yasmina vinna að verkum sínum.
Systurnar Samira og Yasmina vinna að verkum sínum. Ljósmynd/Listasafnið á Akureyri

Endurvakti áhugann

Yasmina er mjög ánægð með að hafa tekið þátt í sýningunni en hún málaði mynd af flamingóum. Hún var í myndlistarskóla í heimalandinu á sínum tíma en segist hafa hætt þar. Verkefnið endurvakti áhuga hennar á myndlist og í dag málar hún mikið. Stúlkurnar fengu afhentar rósir við opnun sýningarinnar eins og aðrir listamenn og þótti þeim báðum gaman hversu margt fólk kom á opnunina. Sýningin Samspil stendur til 18. ágúst.

Sýningin Samspil stendur til 18. ágúst.
Sýningin Samspil stendur til 18. ágúst. Ljósmynd/Listasafnið á Akureyri/Daníel Starrason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert